Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vetrarveður norðvestantil en þurrt sunnan heiða

19.12.2020 - 07:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að loks sé tekið að sjá fyrir endann á úrhellisrigningunni á austanverðu landinu, þótt áfram verði hætta á skriðuföllum eitthvað áfram.

Á norðvestanverðu landinu er hins vegar vetrarveður sem gengur ekki niður fyrr en á mánudag. Veðurstofan spáir norðan og norðaustan hvassviðri eða stormi og ofankomu.

Því er viðbúið að færð muni spillast og eins að skyggni verði mjög slæmt á köflum. Sunnantil á landinu verður lengst af þurrt. Þá verður líklega aðgerðalítið veður fram á aðfangadag að sögn vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Á vef Vegagerðarinnar segir að vetrarfærð sé um norðanvert landið og nokkrar leiðir ófærar eftir nóttina, Siglufjarðarvegur er ófær og óvissustig vegna snjóflóða á veginum um Ljósavatnsskarð.

Í Ólafsfjarðarmúla er þæfingsfærð en unnið að mokstri. Að mestu er greiðfært um sunnanvert landið en hálkublettir á Hellisheiði og Þrengslum. Greiðfært er í nágrenni Borgarness en annars hálka eða snjóþekja á vegum á Vesturlandi en Fróðárheiði er ófær.

Hálkublettir eða snjóþekja er á vegum á Norðausturlandi, greiðfært er á láglendi á Austurlandi en þungfært á Öxi og Breiðdalsheiði. Helgustaðavegur frá Eskifirði er lokaður. 

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV