Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Svíar fá meira bóluefni fyrir áramót en búist var við

epa08892825 A pharmacy worker prepares doses of the Pfizer-BioTech coronavirus disease (COVID-19) vaccine at vaccination clinic in a University of Washington medical center in Seattle, Washington, USA, 18 December 2020. Healthcare workers are among the first to be vaccinated throughout the United States.  EPA-EFE/STEPHEN BRASHEAR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Svíar fá meira kórónuveirubóluefni frá lyfjafyrirtækjunum Pfizer/BioNtech í fyrstu afhendingu bóluefnisins í löndum Evrópusambandsins en áður hafði verið búist við. Auk þeirra 10.000 skammta, sem öll Evrópulönd munu fá, Ísland þar með talið, fá Svíar tugþúsundir skammta til viðbótar.

Í frétt sænska ríkisútvarpsins, SVT, segir að á þriðjudaginn megi búast við því að Lyfjastofnun Evrópu samþykki bóluefnið, en fundi sérfræðinganefndar hennar, sem halda átti 29. desember, var flýtt og verður hann 21. desember.  Búist er við að notkun efnisins verði leyfð eftir þann fund og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins staðfesti leyfið.

Vörubílar hlaðnir bóluefni munu leggja af stað frá Belgíu á aðfangadagskvöld til allra landa Evrópusambandsins og á annan í jólum eiga öll löndin að hafa fengið svokallaðan táknrænan skammt sem eru 10.000 skammtar.

Því til viðbótar fær Svíþjóð 80.000 skammta sem verða afhentir í kringum 28. desember. „Okkur hefur lánast að fá miklu fleiri skammta en við töldum okkur eiga að fá,“ segir Richard Bergström sem hefur umsjón með kórónuveirubólusetningum í Svíþjóð í samtali við SVT.