Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stórbrotin jól!

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanna Guðrún

Stórbrotin jól!

19.12.2020 - 12:50

Höfundar

Jól með Jóhönnu er jólaplata þar sem öllu er til tjaldað, glæsileikinn er keyrður upp í ellefu og tónlist og flutningur eftir því. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Mig rak í rogastans er ég sá umslag plötunnar, því ég þóttist vita hvað væri í gangi hér. Reyndar er ekki hægt að misskilja það; litirnir, gullið, bros Jóhönnu, kjóll og svo framvegis lýsir því beinlínis yfir: Hér munt þá fá að heyra jólaplötu af Mariuh Carey og Celine Dion skólanum, þar sem hlutirnir eru keyrðir upp úr öllu valdi, epík og flugeldar, sykurbráð yfir hljóðrásum og strengir, brass og önnur hljóðfæri berjast um pláss. Þau eiga þó eðli málsins samkvæmt ekki séns í volduga rödd Jóhönnu Guðrúnar. Aðrar plötur af þessum toga eru t.a.m. plata Josh Groban og Mary J. Blige (Have a Mary Christmas). Og allt gott með það! Það er Vegasbragur í gangi og vindur í hári og Jóhanna hefur það í valdi sínu að keyra svona hluti áfram með glans. Sem hún og gerir.

Á plötunni eru tíu lög. Helmingur þeirra er frumsamin og fimm eru tökulög. Tveir gestasöngvarar koma við sögu á plötunni en það eru þeir Sverrir Bergmann og Eyþór Ingi Gunnarsson. Það er Davíð Sigurgeirsson, eiginmaður Jóhönnu, sem upptökustýrir.

„Löngu liðnir dagar“ opnar plötuna og setur tóninn. Strengir styðja við, Jóhanna keyrir sig upp og kórinn fylgir. Bjöllur, ómmiklar sem -litlar gera vart við sig og kraftballöðustillingin er á. „Mín eina jólaósk“ er ábreiða á lagið „Grown-Up Christmas List“ sem Amy Grant gerði vinsælt á tíunda áratugnum. Nokkuð glúrið lag, hefðbundin ballaða að einhverju leyti en undir restina er það keyrt upp og Jóhanna landar því þannig af smekkvísi. Röddin, þessi Guðs gjöf hennar, nýtt á hárréttan hátt. „Takk fyrir þig“ er eftir sjálfan Bubba Morthens, „lítið“ lag sem Jóhanna fer vel með. Það þarf ekki alltaf að fara alla leið upp með sleðana (meðvituð hnyttni frá rýni). „Geymdu það ei til jóladags“ er lag úr ranni Dion og þá er, eins og nærri má geta, ekkert pláss fyrir hófstillingu. Eins og sjá má, sýrópsþol mitt er gott og ég hef unun af slíku í hæfilegum skömmtum og meira að segja miklum reyndar (dýrka þessa Groban plötu t.d.). En í „Hjartað lyftir mér hærra“ – sem er útgáfa af laginu „I Believe“ frá 2004 – er einfaldlega farið yfir þau þolmörk. Lagið er ofhlaðið, ofkeyrt og undir lokin eru Jóhanna Guðrún og Eyþór Ingi bókstaflega öskrandi í kapp við brjálæðislega keyrsluna. Full mikið af hinu góða, svo það sé bara sagt.

Seinni helmingurinn er fínstilltari. „Haltu utan um mig“, sem er eftir Sverri Bergmann, er reyndar fullmikið í fyrirsjáanlegum kraftgír en „Draumur á jólanótt“ er snoturt, er eftir Gunnar Þórðarson við texta Friðriks Erlingssonar. Jóhanna kann á kraftballöðurnar, ó já, en hún getur líka sungið „létt“ og gerir það hér af natni jafnt sem næmni. Fallegt lag. „Velkomin jól“ er eftir eiginmanninn og bráðgott. Jafnvægi gott, styrkur Jóhönnu nýtur sín og útsetning góð og hæfandi. Ábreiða á „Vetrarsól“ Gunnars Þórðarsonar er að sama skapi vel heppnuð og slaufað er með „Ave Maria“, nema hvað.

Vel heppnuð plata þegar allt er tiltekið. Miðað er að því sem Jóhanna gerir svo vel og oftast er farsæld í því falin. En eins og ég hef nefnt, á stundum er farið offari. Frumsömdu lögin standa auk þess ekki nægilega út úr. Hugmynd að næstu plötu gæti verið að demba inn fleiri sígildum lögum, taka þessi lög sem allir þekkja. Því að höfum það á hreinu, ég vil meira efni frá þessari frábæru söngkonu okkar. Rödd hennar er gull, það er bara þannig.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Jóhanna Guðrún - Jól með Jóhönnu

Tónlist

Jóhanna Guðrún flytur nýtt jólalag