Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Staðhæft að Rússar standi að baki tölvuárásum

epa08892840 The US Capitol is seen around dusk in Washington, DC, USA, 18 December 2020. Both chambers of the US Congress are working to pass a temporary extension of a government funding deadline. Leaders want to tie a COVID-19 stimulus relief package to a funding bill that would fund the government through September 2021.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandarískir stjórnmálamenn staðhæfa að Rússar standi að baki netárásum sem hafa undanfarið valdið miklum usla hjá bandarískum stjórnarstofnunum. Demókratar furða sig á þögn forsetans.

Mike Pompeo utanríkisráðherra segir árásirnar hafa verið það viðamiklar að ekki fari milli mála að rússnesk stjórnvöld hafi haft hönd í bagga með þeim. Öldungadeildarþingmaður Demókrata, Dick Durbin er sama sinnis og segir að fingraför Vladimirs Pútín megi finna á verknaðinum.

Athæfið sé hluti af áætlun Rússa um að grafa undan Bandaríkjunum, stefna öryggi ríkisins í hættu og skapa glundroða þegar færi gefst. Durbin segir ekki vitað hverju og hve miklu Rússar hafi komist að og nauðsynlegt sé að rannsaka hvað hafi farið úrskeiðis í öryggismálum ríkisins.

Hann furðar sig á þögninni sem ríki um málið úr ranni Hvíta hússins, hvers vegna forsetinn hafi ekki stigið fram og gagnrýnt Rússa harðlega fyrir árásirnar. Durbin kveðst vongóður um að Joe Biden, tilvonandi forseti, komi á öðruvísi samskiptum og samkomulagi við Pútín en nú tíðkist.

Bandaríkin geti ekki verið undir hæl Pútíns án þess að bregðast við - og meira en það segir Dick Durbin öldungadeildarþingmaður.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV