Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Minnst 11 hús hafa orðið fyrir skemmdum á Seyðisfirði

19.12.2020 - 12:17
default
 Mynd: Almannavarnir/Ríkislögreglustj - RÚV
Minnst 11 hús hafa orðið fyrir skemmdum á Seyðisfirði eftir aurskriður síðustu daga en reyna á að meta frekara tjón síðar í dag. Skriðan sem féll í morgun gefur vísbendingar um að enn sé óstöðugleiki í jarðlögum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra. Óheft umferð um Seyðisfjörð verður óheimil í dag og því fá íbúar bæjarins ekki að snúa aftur heim. 

„Dagurinn verður nýttur til þess að meta umfang skriðufalla síðustu daga auk hættu á frekari skriðuföllum. Auk þess þarf að meta umfang tjóns og stöðu mikilvægra innviða á Seyðisfirði.  Það verður gert undir  eftirliti lögreglu með hjálp björgunarsveita.“

Neyðarstig almannavarna er enn í gildi og ákveðið hefur verið halda rýmingu á Eskifirði í dag.  „Hús við nokkrar götur voru rýmd síðdegis í gær þegar í ljós kom að sprungur í gamla Oddskarðsveginum, ofan við bæinn, höfðu stækkað“

default
 Mynd: Almannavarnir/Ríkislögreglustj - RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV