Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Machu Picchu opnuð ferðamönnum að nýju

19.12.2020 - 06:40
A general view of the city of Machu Picchu, Peru, 09 September 2007. Machu Picchu was constructed around 1450, in the golden period of the Inca empire, and was abandoned less than 100 years later, as the empire collapsed under the Spanish conquest.
 Mynd: EPA
Ferðamenn geta aftur tekið til við að heimsækja virkisborg Inkaveldisins, Machu Picchu í Perú. Borgin verður opnuð aftur í dag eftir að yfirvöld náðu samkomulagi við mótmælendur sem höfðu komið sér fyrir á lestarteinum einu leiðarinnar að borginni.

Ástæða mótmælanna var krafa íbúa bæjanna Machu Picchu og Ollantaytambo um lægra fargjald og tíðari ferðir til borgarinnar Cusco. Mótmælendur segjast aðeins hafa frestað aðgerðum sínum því ekki hafi náðst varanlegt samkomulag við stjórnvöld.

Machu Picchhu, sem er á heimsminjaskrá UNESCO og stundum kölluð „Týnda borgin“, hafði verið lokuð ferðamönnum um átta mánaða skeið vegna kórónuveirufaraldursins en opnuð að nýju fyrir sex vikum.

Borgin stendur á fjallsbrún yfir Urumbambadalnum og er í ríflega 2,4 kílómetra hæð yfir sjávarmáli. Inkar reistu borgina um miðja fimmtándu öld þegar veldi þeirra stóð sem hæst en yfirgáfu hana 1572 eftir hernám Spánverja í Perú.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV