Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Húsin sem skemmdust eru ekkert einkamál Seyðfirðinga

19.12.2020 - 17:56
Mynd: Þórður Atli Eiríksson / RÚV
Að minnsta kosti ellefu hús á Seyðisfirði hafa skemmst í aurskriðunum þar síðustu daga, flest hafa þau mikið sögulegt gildi og meðal þeirra er fyrsta sjoppa landsins. Þóra Guðmundsdóttir arkitekt, sem skrifað hefur sögu húsanna á Seyðisfirði, segir að þarna hafi miklar menningarminjar glatast og að það sé ekki einkamál Seyðfirðinga.

„Ég held að við getum alveg litið til þess að endurbyggja eitthvað af þessum húsum. Þau eru þjóðargersemar og í sjálfu sér einföld í byggingu. Fólk var að byggja þessi hús á einu sumri í gamla daga og ég held að okkur sem ríkri þjóð í dag ætti ekki að vera skotaskuld úr því að endurbyggja þau,“ segir Þóra.

Hún segir að þarna séu mörg hús sem hafi mikið sögulegt  og menningarlegt gildi, meðal annars fyrsti söluturninn á Íslandi. „Þetta er fyrsta sjoppa á Íslandi. Í okkar sjoppumenningarlandi. Bjálkabyggt hús sem væri auðvelt að endurbyggja, við eigum fullt af ljósmyndum. Þetta er tilsniðið frá Noregi og teikningar væntanlega til í skjalasöfnum ytra,“ segir Þóra.

Hún nefnir einnig Framhúsið. „Sem er svokallað „tiny-hús“ 56 fermetrar. Plankabyggt og stóð fallega í grænu túni sem hingað til hefur þótt mjög öruggur staður. Ég held að við ættum bara að einhenda okkur í það að hjálpa fólkinu sem á þessi hús að endurbyggja þau. Það finnst mér vera hin réttu viðbrögð.“

„Svo fór þarna hús sem er mjög merkilegt, gamla skipasmíðastöðin. Þar glataðist einn af  vinnustöðunum í bænum; ungir menn sem voru búnir að koma sér þar fyrir  með smíðaverkstæði.“

Það sem hafi verið sérstakt við húsin hafi verið sú heild sem þau mynduðu. Hún sé nú rofin. Eitt og eitt hús hafi áður horfið úr húsasafninu, þau hafi brunnið eða orðið fyrir einhverjum skakkaföllum. „En þarna er að fara heill biti úr einu elsta hverfinu á Seyðisfirði þar sem norsku athafnamennirnir komu sér fyrir. Þetta er upphafið að þessum kaupstað. Þetta er Búðareyrin og þarna fór bara stór hluti. Ég held að við verðum að huga að því ef kaupstaðurinn á að lifa áfram að fara í einhvers konar endurreisn og enduruppbyggingu,“ segir Þóra.

Þóra segir að húsin og afdrif þeirra séu ekki einkamál Seyðfirðinga. „Þetta er hluti af þjóðararfinum. Þetta eru menningarverðmæti okkar allra.“