
Fæðingarorlof lengist úr tíu mánuðum í tólf
Sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig verður sex mánuðir en foreldrum verður heimilt að framselja sex vikur sín á milli, og því getur annað foreldrið tekið fæðingarorlof í allt að sjö og hálfan mánuð en hitt í fjóra og hálfan.
Auk þess eru gefnar frekari heimildir milli foreldra þegar annað þeirra getur ekki nýtt réttinn til fæðingarorlofs. Það á til að mynda við ef ekki reynist mögulegt að feðra barn, samkvæmt barnalögum eða ef annað foreldrið á ekki rétt til töku fæðingarorlofs hér á landi né í heimaríki sínu.
Þeir foreldrar fá sérstakan styrk sem að mati sérfræðilæknis þurfa að dvelja fjarri heimili fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins, sé það vegna nauðsynlegrar þjónustu vegna fæðingarinnar.
Í tilkynningu frá Félagsmálaráðuneytinu segir að alls verði 19,1 milljörðum króna varið í fæðingarorlof á árinu 2021 sem sé tæplega tvöföldun á þeim fjármunum sem fóru til málaflokksins árið 2017, á verðlagi hvors árs.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra kveðst gríðarlega ánægður með niðurstöðuna enda sé verið að auka réttindi foreldra til samvista við börn sín á fyrstu mánuðum ævi þeirra.
Jafnramt sé skerpt á réttindum einstæðra foreldra. „Við erum að skapa enn betra umhverfi fyrir foreldra og börn og auka þann tíma sem þau hafa saman á fyrstu mánuðunum en það er einstaklega dýrmætur tími, bæði fyrir foreldra og börn," segir Ásmundur Einar.