Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Bretar færast nær bóluefni AstraZeneca og Oxford

epa08612065 A general view of an analytical chemist at AstraZeneca?s headquarters in Sydney, Australia, 19 August 2020. Australian Prime Minister Scott Morrison announced Australians will be among the first in the world to receive a COVID-19 vaccine, if it proves successful, through an agreement between the government and UK-based drug company AstraZeneca.  EPA-EFE/DAN HIMBRECHTS  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA
Talsverðar líkur eru taldar á því að breska lyfjastofnunin veiti bóluefni AstraZeneca og Oxford-háskólans neyðarleyfi þann 28. desember. Fljótlega eftir það verður hægt að nota bóluefnið. Jeremy Hunt, formaður velferðarnefndar breska þingsins, segir að leyfið myndi gjörbreyta stöðunni . Líkur séu á að Pfizer-bóluefnið klárist í lok janúar og ekki sé von á nýjum skömmtum fyrr en í mars.

Miklar vonir eru bundnar við bóluefni AstraZeneca og Oxford. Það er ódýrara í framleiðslu og einfaldara að geyma það en efasemdir kviknuðu eftir að rannsóknir sýndu ólíka virkni eftir skammtastærð. 

Fram kemur á vef Guardian að bresk stjórnvöld bindi vonir við að Lyfjastofnun Bretlands veiti bóluefninu blessun sína eftir jól, jafnvel 28. eða 29. desember. Þeir séu þó meðvitaðir um að það geti brugðið til beggja vona og að leyfið fáist ekki fyrr en eftir áramót.  

Guardian segir breska ráðamenn ósátta við hversu lengi lyfjastofnunin er að fara yfir gögnin og þeir spyrji sig hvers vegna það hafi tekið mun skemmri tíma að samþykkja bóluefni Pfizer og BioNTech.

Jeremy Hunt, formaður velferðarnefndar breska þingsins, sagði í útvarpsviðtali við BBC í morgun að hugsanlegt væri að Pfizer-bóluefnið myndi klárast á Bretlandi í lok janúar. Ekki væri von á nýjum skömmtum fyrr en í mars.  „Þannig að ef það tekst að fá leyfi fyrir bóluefni AstraZeneca í janúar þá getum við haldið áfram að bólusetja án nokkurra tafa.“

Talsmaður bresku lyfjastofnunarinnar sagði í yfirlýsingu að enn væri verið að fara yfir gögn frá AstraZeneca og Oxford.  Gæta yrði fyllsta öryggis og tryggja að bóluefnið uppfyllti allar gæðakröfur.  Lundúnabúar og allt fólk í suðurhluta Englands á að halda sig heima frá og með morgundeginum og til 30. desember. Boris Johnson, forsætisráðherra, sagði í yfirlýsingu í dag að útbreiðsla faraldursins væri mun meiri í suðurhluta landsins nú en spáð hafi verið og því hafi þurft að grípa til þessara ráðstafana. 

Íslensk stjórnvöld hafa gert samkomulag við AstraZeneca um bóluefni fyrir 115 þúsund manns. Ekki er ljóst hvenær Lyfjastofnun Evrópu afgreiðir umsókn fyrirtækisins um skilyrt markaðsleyfi. Á mánudag er hugsanlegt að slíkt leyfi fáist fyrir bóluefni Pfizer og þann 6. janúar á að afgreiða umsókn Moderna.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV