Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Blómleg flugeldasýning í garðinum heima

Mynd: RÚV / RÚV

Blómleg flugeldasýning í garðinum heima

19.12.2020 - 15:14

Höfundar

Dans birtist í flugeldum sem birtast svo í blómum í meðförum listakonunnar Siggu Soffíu. Listaverk hennar Eldblóm, tekur á sig nýja mynd á ljósmyndasýningu við Hörpu og á Sæbraut. 

Verkið Eldblóm var hluti Listahátíðar í Reykjavík, flugeldasýning í blómaformi í Hallargarðinum í Reykjavík. Á ljósmyndasýningunni má sjá ferlið að baki því listaverki frá upphafi til enda, en Marínó Thorlacius tók myndirnar. „Ljósmyndasýningin er tvískipt, sú á Sæbraut heitir frá Fræi til flugelda en við Hörputorg er ljóssýningin Eldblóm sem er yfirlitssýning yfir verkefnið,“ segir Sigga Soffía. „Konsept verksins var svolítið að sætta sig við endanleika lífsins. Allt tekur enda og allt hefur byrjun og það er eitthvað við það að setja fræ í mold og það vex upp alveg eins og flugeldur, springur út og deyr. Flugeldar voru upphaflega hannaðir eftir blómum til að upphefja náttúruna en svo á einhverjum tímapunkti þá fór eitthvað úrskeiðis því við fórum svo 'all in' í flugeldum að þeir eru byrjaðir að menga náttúruna í stað þess að upphefja hana eins og þeir gerðu á 15. öld.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flugeldar voru upphaflega hannaðir eftir blómum til að upphefja náttúruna.

Frost skilur eftir svarta mynd

Í verkunum er allt ferlið sýnt, ekki aðeins það andartak sem samkvæmt viðteknum skilgreiningum þykir fallegast. „Flugeldar líkja bara eftir lífinu á fjórum sekúndum og blómin gera það líka. Í þessari sýningu, frá Fræi til flugelda, sýnum við þessar þrjár birtingarmyndir; knúppurinn þegar það er að skjótast upp, hin magnaða sprenging eða grand finale eins og það er kallað í flugeldum en svo er í raun og veru endirinn sem mér finnst fallegastur og hef verið að reyna að beina augum áhorfandans að, bæði með flugeldasýningar og blómin, að eftir flugeldurinn springur út þá verður eftir reykjargrind, sveimandi reykur í lögun flugeldsins. Og alveg eins þegar blómin deyja þá stendur eftir svört mynd af dalíunum þegar þau eru dáin eftir fyrsta frost og ljósmyndirnar, lokapunktur sýningarinnar eru af þessum endapunkti, sem mér finnst ekki síður fallegur en útsprungin blóm,“ segir Sigga Soffía. 

Okkar eigin eldblóm

Sigga Soffía og Marínó gera fólki kleift að njóta hugmyndarinnar í eigin garði. „Okkur fannst svo spennandi að reyna að koma list til fólks og gefa fólki tækifæri á að fá litla útgáfu af verkinu heim til sín. Þannig að við höfum útbúið konsept sem er á eldblom.is, gjafabréf þar sem þú getur keypt 100% vistvæna flugelda eða fræ og hnýði af þessum blómum, þá getur þú sett niður og skotið upp þínum flugeldum sem blómstra þá og springa út í sumar. Þá færðu í raun og veru litla útgáfu af þessu verki, Eldblóm, dansverk fyrir flugelda og flóru.“

Nánari upplýsingar um Eldblómin má finna hér.

Tengdar fréttir

Dans

Sér flugeldasýningar í hverjum garði