Verkið Eldblóm var hluti Listahátíðar í Reykjavík, flugeldasýning í blómaformi í Hallargarðinum í Reykjavík. Á ljósmyndasýningunni má sjá ferlið að baki því listaverki frá upphafi til enda, en Marínó Thorlacius tók myndirnar. „Ljósmyndasýningin er tvískipt, sú á Sæbraut heitir frá Fræi til flugelda en við Hörputorg er ljóssýningin Eldblóm sem er yfirlitssýning yfir verkefnið,“ segir Sigga Soffía. „Konsept verksins var svolítið að sætta sig við endanleika lífsins. Allt tekur enda og allt hefur byrjun og það er eitthvað við það að setja fræ í mold og það vex upp alveg eins og flugeldur, springur út og deyr. Flugeldar voru upphaflega hannaðir eftir blómum til að upphefja náttúruna en svo á einhverjum tímapunkti þá fór eitthvað úrskeiðis því við fórum svo 'all in' í flugeldum að þeir eru byrjaðir að menga náttúruna í stað þess að upphefja hana eins og þeir gerðu á 15. öld.“