Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Bjartsýn á sátt um hálendisþjóðgarð

19.12.2020 - 17:25
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra segist vongóð um að Alþingi samþykki frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, um hálendisþjóðgarð. Hún segir að koma þurfi engu að síður til móts við áhyggjur fólks sem snúi fyrst og fremst að því að tryggja verði sjálfsákvörðunarrétt fólks í sínu nánasta umhverfi.

Lilja telur að frumvarpið sé vel unnið af hálfu umhverfisráðherra, hann sé lausnamiðaður og reiðubúinn til málamiðlana. 

„Ég er vongóð um það, við höfum lent í ýmsum erfiðum málum ríkisstjórnin en við höfum líka klárað heilan helling eins og við höfum séð. Ég býst nú við, miðað við hverjir sitja þarna við borðið að við munum ná góðri sátt um málið að því gefnu að það sé hægt að koma að því sem við settum fram,“ sagði Lilja í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í dag. 

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, var einnig meðal gesta í þættinum. „Mér finnst mjög margt gott í frumvarpinu og ég held að flestum skilyrðum sé mætt. Þó er það þannig að ef stór hluti þjóðarinnar er ósáttur þá leiðir það bara af sjálfu sér til þess að það þarf að ræða málið til botns,“ sagði Logi.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, sagði deilur um ýmis atriði í frumvarpinu storm í vatnsglasi. „Og ég veit að Mummi ráðherra hefur lagt hjarta og sál í þessa vinnu en það er ágreiningur um ýmis mál. Nú er það komið til umhverfis- og samgöngunefndar og það er kominn framsögumaður málsins en það er líka komin einhver stýrinefnd sem í sitja fulltrúar stjórnarflokkanna þriggja. Þetta mál er ekki fullbúið. Við hin sitjum bara og horfum á. Ég segi bara eins og er: Ég er varla tilbúin að fara í þriðja umgang til að setja mig og Viðreisn inn í þetta mál þegar við vitum að það er ekki svona sem stjórnarflokkarnir ætla að leggja þetta fram, það verða einhverjar breytingar.“