Austureyjagöngin í Færeyjum verða opnuð við mikla viðhöfn klukkan 11 á morgun laugardag. Jørgen Niclasen samgöngumálaráðherra klippir á borða og verður fyrstu til að aka í gegn en göngin verða opin fyrir almenna umferð frá hádegi á morgun.
Göngin eru ellefu kílómetra löng og liggja neðansjávar, þykja mikið mannvirki og tengja höfuðstaðinn Þórshöfn við Austurey á tveimur stöðum.
Búist er við að fjöldi fólks verði viðstaddur opnunina og aki í gegn því næstu tvær vikurnar verður það frítt, að því búnu ber að greiða veggjald. Það þykir hátt og hefur kveikt talsverðar deilur á samfélagsmiðlum.
Á morgun verður einnig frítt að aka um hin tvö neðansjávargöngin í Færeyjum og því hægur vandi fyrir flesta eyjaskeggja að vera viðstaddir opnun nýju gangnanna, auk þess sem sýnt verður beint frá opnunarathöfninni í sjónvarpi.