Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

11 ára drengur og faðir hans hlupu undan skriðunni

Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Við héldum að húsið myndi detta á okkur, segir ellefu ára drengur sem tókst ásamt föður sínum að forða sér á hlaupum undan stóru skriðunni í gær. Pabbi hans greip hann og var tilbúinn að stökkva í sjóinn til að bjarga þeim. Drengurinn segir það heppni að skriðan hafi stoppað á húsi sem stóð bak við íbúðarhúsið.

Brimir Christophsson Büchel, ellefu ára, var heima hjá sér í húsinu Þórshamri á Seyðisfirði ásamt föður sínum í gær rétt áður en stóra skriðan féll. Húsið stendur við bryggjuna.

„Hann var á skrifstofunni sinni að vinna í tölvunni og svo heyrði hann rosalega hátt hljóð og hann heyrði að það væri skriða. Þannig að hann tók mig og bara hljóp og fór niður og beint á bryggjuna og ætlaði að hoppa út í með mér. Við héldum að húsið myndi detta niður á okkur og við ættum að hoppa af en það gerðist ekki. Svo stoppaði skriðan og við fórum bara upp á skriðuna og fórum hjá björgunarhúsinu og við hittum menn nálægt þar,“ segir Brimir í viðtali við Rúnar Snæ Reynisson fréttamann.

Pabbi Brimis var nýkominn úr sturtu þegar ósköpin dundu yfir. 

„Við bara hlupum út. Pabbi var bara á nærbuxunum og í bol. Ég var bara í sokkum bara í einhverjum buxum og bol,“ segir Brimir.

Og hélt pabbi þinn á þér?

Já, hann hélt á mér hálfa leiðina, á bryggjuna. Svo hlupum við á moldinni en pabbi fór svona niður og meiddi sig smá. En ég bara hljóp á moldinni og sökk ekki,“ segir Brimir.

Þeir feðgar fengu far með bíl út af flóðasvæðinu. 

„Og við fórum í skjól og svo var mamma að leita að okkur. Það var mikið áfall,“ segir Brimir.

Varstu hræddur?

„Já, ég var rosalega hræddur,“ segir Brimir.

Hvernig leit skriðan út?

„Það var fullt af mold, risastórum nöglum og bílhurð og fullt af mold bara. Svo húsin. Ég sá fullt af húsum bara detta niður. Svo vorum við rosalega heppinn það var eitthvað Silfurhús þarna sem bara bjargaði okkur, á bak við  húsið okkar,“ segir Brimir.

Fjölskyldan er þakklát fyrir að allir á Seyðisfirði hafi sloppið ómeiddir í hamförunum.

Hér fylgir allt viðtal Rúnars Snæs við Brim:

 

Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV