Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vill að Ríkisendurskoðun rannsaki flugakademíu Keilis

18.12.2020 - 13:31
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd/ Keilir - RÚV
Meirihluti fjárlaganefndar leggur til að Keilir Aviation Academy fái 80 milljónir á ári næstu þrjú árin. Þess er þó krafist að forsvarsmenn flugakademíunnar leiti eftir samningum við kröfuhafa um að lækka skuldir og selji flugvélar til að grynnka frekar á skuldum. Þá er þess farið á leit að Ríkisendurskoðun rannsaki fjármál Akademíunnar og kaup hennar á Flugskóla Íslands.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nefndaráliti fjárlaganefndar við fjárlög næsta árs.  Nefndarálitið var birt á vef Alþingis í dag.

Keilir eignaðist Flugskóla Íslands í byrjun síðasta árs en hann hafði þá verið rekinn undir því nafni í hartnær þrjátíu ár.  Kaupin áttu að styrkja flugkennslu á Íslandi. Reynsla og þekking stjórnenda og kennara Flugskóla Íslands var sögð eiga að hafa jákvæð áhrif á starfsemi Keilis.

Ríkisstjórnin hefur þegar ákveðið að leggja til 190 milljónir sem hlutafé í menntafyrirtækið Keili. Í framhaldinu ætlar ríkissjóður að taka við sem meirihlutaeigandi félagsins gegn því að sveitarfélögin á Suðurnesjum leggi einnig til viðbótarhlutafé.