Þungur tónn í Barnier
Michel Barnier sagði í morgun, er hann gaf Evrópuþinginu skýrslu um gang viðræðna, að fiskveiðar og tollfrjáls fiskútflutningur Breta væri helsta hindrunin í vegi fyrir samkomulagi. Tónninn í Barnier var þungur.
Ég get ekki sagt fyrir um niðurstöðuna á þessum síðustu stundum samningaviðræðnanna.
Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins
Barnier bætti við að fólk yrði að búa sig undir að Bretar hyrfu af innri markaði og úr tollabandalagi við ESB án samninga um áramótin.
Árangurslaust símtal Johnsons og von der Leyen
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ræddust við í síma í gærkvöld. Eftir símtalið sögðu þau bæði að staðan væri afskaplega viðkvæm. Í yfirlýsingu frá Johnson segir að ESB verði að breyta afstöðu sinni algjörlega, Bretar geti ekki sætt sig við að vera eina fullvalda þjóð heims sem ekki ráði yfir fiskveiðilögsögu sinni. Barnier sagði í morgun hins vegar að nú yrðu Bretar að gera upp hug sinn. Breska þingið fór í jólafrí í gær en hægt verður að kalla þing saman til að staðfesta samning ef hann næst.