Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Seyðisfjörður rýmdur—minnst tíu hús skemmdust í skriðu

18.12.2020 - 15:07
Mynd: Skjáskot / RÚV
Stór skriða féll á hús á Seyðisfirði á þriðja tímanum. Skriðan féll úr Búðará, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Tómas Jóhannesson, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að skriðan sem féll síðdegis á sunnanverðum Seyðisfirði, hafi hrifið með sér tíu hús. Sum þeirra hafi farið út í sjó. Áhöfnin á varðskipinu Tý hefur verið kölluð út til að vera til taks á Seyðisfirði.

Tómas segir að það hafi verið búið að rýma nánast öll húsin sem skriðan féll á. Viðbragðsaðilar kanni nú hvort einhver kunni að hafa verið á ferðinni á svæðinu þar sem skriðan féll en að ekki hafi borist fréttir af því enn. Margir hafi sloppið naumlega. 

Minnst tíu hús eru skemmd. Allar björgunarsveitir á Austurlandi hafa verið boðaðar og lögreglumenn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Neyðarstigi hefur verið lýst yfir á svæðinu. 

Sérsveit ríkislögreglustjóra og frá lögreglunni á Norðurlandi eystra hafa einnig verið sendir á staðinn.

Ágúst Ólafsson, fréttamaður á staðnum, segir að ytri bærinn sé rafmagnslaus og að viðgerðarmenn þurfi að fara sjóleiðina til að geta farið í viðgerðir. Skriðan nú síðdegis féll meðal annars á húsnæði björgunarsveitarinnar þar sem björgunarsveitarmenn voru. Ekki sé vitað til þess að nein slys hafi orðið á fólki.

Gunnar Gunnarsson hjá Austurfrétt segir á vefmiðlinum að hús sem varð fyrir skriðunni hefði „kubbast eins og pappakassi“. Rafmagn er farið af hluta bæjarsins. Á vef Austurfréttar kemur fram að ekki sé ljóst með fólk á svæðinu en húsið hafi verið innan rýmingarsvæðis. 

Viðmælandi fréttastofu á Seyðisfirði segir að drunurnar hafi hljómað eins og heilt fjall hefði hrunið niður í fjörðinn. Svo hefði rafmagnið slegið út og það væri ekki komið aftur á. Íbúar hefðu verið beðnir um að gefa sig fram í fjöldahjálparstöðina í bænum. 

Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá ríkislögreglustjóra, segir að skriðan hafi verið stór en ekki er vitað hvort fólk hafi verið í húsunum.

Fjöldi fólks hefur þurft að yfirgefa heimili sín og óvíst hvenær það fær að snúa aftur heim. 

Um klukkan þrjú í nótt féll skriða úr Nautaklauf og hreif húsið Breiðablik við Austurveg af grunni sínum og bar það út á götu. Húsið var mannlaust en það barst allt að þrjátíu til fjörutíu metra. Enn er úrhellisrigning á Seyðisfirði og ekki útlit fyrir að það stytti upp að ráði fyrr en á morgun.

Hættustig er vegna skriðufalla á Seyðisfirði og óvissustig á öllu Austurlandi. Þá er appelsínugul viðvörun vegna veðurs fyrir Austfirði.