Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ótrúlegt að skynja samstöðuna í samfélaginu

18.12.2020 - 19:43
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
„Þjóðinni allri er virkilega brugðið við þessar fregnir. Það má auðvitað ganga kraftaverki næst ef ekki hefur orðið manntjón í þessum ægilegu hamförum. En við stöndum auðvitað öll með Seyðfirðingum í dag og hugsum til þeirra,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtali í sjónvarpsfréttum í kvöld.

„Þetta er ótrúlegt áfall sem er að dynja yfir bæinn og einungis hægt að ímynda sér hvernig Seyðfirðingum líður núna, fjarri sínum heimilum með þessa óvissu um framtíðina rétt fyrir jól. En það er líka ótrúlegt, því ég hef heyrt í nokkrum fyrir austan í dag, að skynja þessa mikla samstöðu í samfélaginu. Fólk gengur úr rúmum sínum og býður alla aðstoð og hjálp. Við stöndum öll saman og förum í gegnum þetta eins og annað,“ sagði Katrín. 

Stjórnvöld undirbúa viðbrögð

Er hægt að segja til um það á þessari stundu hvernig stjórnvöld bregðast við því miklu tjóni sem hefur orðið á Seyðisfirði? 

„Það er náttúrulega óvíst hversu mikið tjónið er en það er ljóst að það er mikið. Og það er ljóst að það þarf að skoða sérstaklega varnir í fjallinu. Svo er sérlega óhugnanlegt að heyra lýsingar bæjarbúa á drununum í fjallinu þegar skriðurnar gengu niður. Hins vegar höfum við þegar sett af stað samstarfshóp ráðuneyta sem mun fara yfir þetta mál. En það er ljóst að það mun meira þurfa að koma til og við erum þegar byrjuð á þeirri vinnu.“

Er tryggt að það verði ráðist í hreinsunar- og uppbyggingastarf eins hratt og hægt er?

„Já, nú munum við öll leggjast á árar og gera okkar besta til að komast í gegnum þetta. Núna erum við bara ennþá stödd í því að það er ennþá ekki hægt að byrja að meta stöðuna fyrr en birtir á  morgun. En við stöndum öll saman í þessu og það er öllum þingmönnum brugðið. Það er ríkur vilji til að gera það sem þarf til að þetta verði í lagi.“

Þannig að íbúar mega búast við að fá stuðning við uppbyggingu og hreinsunarstarf?

„Já, já. Við höfum verið í sambandi við sveitarstjórnina í dag. Þetta verður sameiginlegt verkefni.“