Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Mikið högg fyrir sveitarfélagið og íbúana á Seyðisfirði

Mynd: RÚV / RÚV
„Þetta eru auðvitað miklar hamfarir og svakalegt að sjá hvernig þetta hús hefur færst með aurskriðunni. Sem betur fer er ekki föst búseta þarna en þetta sýnir þá hættu sem getur stafað af svona skriðuföllum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um aurskriður á Seyðisfirði síðustu daga. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að nú sé til skoðunar hvers konar stuðning ríkið veiti.

Þarf að skoða varnir gegn skriðuföllum

„Mér var sagt af bæjarstjóranum að fólk stæði mjög vel saman í bæjarfélaginu í kringum þetta og héldi vel og þétt hvert utan um annað. En þetta minnir okkur enn og aftur á það hvað náttúruöflin eru ríkjandi hér í samfélagi okkar,“ bætir Katrín við. 

Það er væntanlega eitthvað tjón þarna, huganlega í dælukerfi bæjarins. Sérðu fyrir þér að ríkisstjórnin komi með eitthvað fjárframlag til Seyðfirðinga?

„Já, núna er staðan sú að það er spáð frekari rigningu í dag þannig að við erum enn stödd þar að það er verið að bregðast við. Svo verðum við í samskiptum við bæjarfélagið um þetta. En við erum öllu vön þegar kemur að náttúruhamförum og þar axla ríki og sveitarfélög ábyrgð.“

Er bærinn með nægan mannskap í þetta verkefni núna?

„Mér heyrðist á bæjarstjóranum að þetta væri allt undir stjórn og væri mjög vel og faglega að þessu staðið.“

Sérðu fyrir þér að ríkisstjórnin heimsæki Seyðisfjörð, er það á döfinni?

„Við skulum bara sjá til með það en ég held að við þekkjum að það eru ummerki þarna eftir fyrri skriður og þetta er eitt af því sem þarf að skoða til framtíðar, það hvernig við stöndum að uppbyggingu. Mest áhersla hefur verið á snjóflóðavarnir því það eru mannskæðustu náttúruhamfarir sem við þekkjum og þess vegna hefur þeim verið forgangsraðað. En það er full ástæða til að skoða þessa ferla gagnvart vörnum fyrir svona skiðuföllum.“

Fjárveiting til Seyðisfjarðar komi til greina

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ríkisstjórnin hafi fylgst með atburðum síðustu daga. „Þær stofnanir sem eiga þar snertifleti við ástandið eru að veita okkur upplýsingar og við erum að leggja mat á það hvaða stuðningsaðgerðir kæmu til aðgerða,“ segir hann. 

Sérðu fyrir þér að ríkið veiti fjármunum til Seyðisfjarðar?

Mér finnst það mjög vel koma til greina, allt eftir aðstæðum. Og við erum að horfa til samfélagsins þarna og höggið er án vafa mikið, bæði fyrir sveitarfélagið sjálft og íbúana.