
Kosið um „Sveitarfélagið Suðurland“ í vor
„Sveitarfélagið Suðurland“
Sveitarstjórnir fimm sveitarfélaga á Suðurlandi skipuðu verkefnishóp til að kanna hvaða áhrif sameining sveitarfélaganna hefði á rekstur og þjónustu þeirra. Þetta eru Ásahreppur, Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur, sem um nokkurt skeið hafa átt í óformlegum viðræðum um sameiningu. Verkefnið hefur hlotið yfirskriftina Sveitarfélagið Suðurland og nú hafa öll sveitarfélögin samþykkt að ganga til formlegra viðræðna um sameiningu.
Tæp 70% hlynnt formlegum viðræðum
Zenter rannsóknir könnuðu afstöðu íbúanna til sameiningarviðræðna. Kom þar fram að 69 prósent þeirra eru hlynnt þeim en 16 prósent andvíg. Einar Freyr Elínarson, oddviti sveitarstjórnar Mýrdalshrepps, segir að sveitarfélögin eigi langa sögu um samstarf og nú sé tekið skref í átt að sameiningu.
Öll sveitarfélögin í góðri stöðu
„Við erum búnir að vera í könnunarviðræðum og erum auðvitað í umfangsmiklu samstarfi nú þegar. Öll þessi sveitarfélög eru í góðri stöðu fjárhagslega og okkur fannst tilraunarinnar virði að skoða þetta betur,“ segir Einar.
Kosið í vor
Einar segir að nú taki við frekari viðræður sem endi með íbúakosningu. „Það er ekki búið að dagsetja kosningu en ég reikna með að hún geti farið fram í apríl eða maí. Það var góður stuðningur íbúa við að fara í formlegar viðræður og því fannst okkur sjálfsagt að gefa íbúum þennan kost. “