Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fimm falleg ójólalög fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Domino Records - Acts of Rebellion

Fimm falleg ójólalög fyrir helgina

18.12.2020 - 14:20

Höfundar

Það eru engir litlir trommuleikarar að spila á jólabjöllur í fimmunni frekar en venjulega enda eru jólin ekki alls staðar. Það sem er í boði eru neglur frá; írsku tónlistarkonunni Biig Piig, nýju skerfurunum af Nottingham, Sleaford Mods, kólumbísku skvísunni Ela Minus, skosku þunglyndispésunum í Arab Strap og síðasta orðið á enska tónlistarkonan Anaïs Oluwatoyin Estelle Marinho eða bara Arlo Parks.

Biig Piig – Feels Right

Írska tónlistarkonan Jess Smith sendir frá sér tónlist undir nafninu Biig Piig sem er yfirleitt frekar grúví eins og Austin Powers sagði á síðustu öld. Feels Right er engin undantekning á því og verður að finna á fyrstu plötu Biig Piig sem kemur út á næsta ári.


Sleaford Mods með Billy Nomates – Mork n Mind

Nágrannar Hróa Hattar í Sleaford Mods eru ekkert að flækja hlutina í sinni tónlistarsköpun sem er undir sterkum áhrifum frá þýsku hljómsveitinni Trio sem söng DaDaDa fyrir fólk með axlapúða. Munurinn á þeim þýsku og Sleaford Mods er sennilega að þeir hafa ekki náð alheimshitti en sent frá sér nokkrar neglur og Mork n Mind er ein af þeim þar sem söngkonan Billy Nomates lyftir naumhyggjunni aðeins hærra.


Ela Minus – Dominique

Ela Minus er það heitasta sem hefur komið frá Kólimbíu síðan Pablo Escobar var upp á sitt besta að redda heimsbyggðinni innantómri hamingju og partýstuði í gamla daga. Lagið Dominique er að dúkka upp á árslistum hér og þar og er að finna á fyrstu plötu hennar, Acts of Rebellion, eins og lagið Megapunk sem sumir muna kannski eftir héðan fyrir nokkrum mánuðum.


Arab Strap – Compersion Pt.1

Öllum að óvörum sendi dúettinn frábæri Arab Strap frá sér geggjað lag í september sem var það fyrsta sem heyrðist frá þeim í fimmtán ár og hét Turning Of Our Bones. Með söngul númer tvö, Compersion Pt.1, er ljóst að það kemur stór plata í mars sem hefur fengið nafnið As Days Get Dark. Sú er sem betur fer um eymd og volæði á jákvæðan og hressandi hátt eins og aðrar plötur Arab Strap.


Arlo Parks – Caroline

Breska tónlistarkonan Arlo Parks hefur sent frá sér nokkra sjóðheita söngla á árinu og verður að teljast sem einn allra sterkasti nýliðinn í tónlistarlífinu á árinu. Aðdáendur hennar fá fyrstu plötu skvísunnar, Collapsed In Sunbeams, þann 29. janúar og lagið Caroline er á henni og er undir frekar greinilegum Radiohead-áhrifum, en hún hefur svo sem ekkert falið það að hún er mikill aðdáandi.


Fimman á Spottanum