Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Bandaríski sjóherinn boðar aukinn sýnileika og hörku

18.12.2020 - 02:29
epa05913065 A handout photo made available by the US Department of Defense shows (L-R) the Arleigh Burke-class guided-missile destroyer USS Michael Murphy (DDG 112) and the Ticonderoga-class guided-missile cruiser USS Lake Champlain (CG 57) underway with the aircraft carrier USS Carl Vinson (CVN 70), in the Indian Ocean, 14 April 2017 (issued 18 April 2017). According to media reports, the Carl Vinson US Navy Strike Group, is moving toward the Korean peninsula in the wake of North Korean ballistic missile tests and reported increased activity at North Korea's nuclear test site.  EPA/US DEPARTMENT OF DEFENSE HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA
Bandarísk hernaðaryfirvöld vara við því að herskipum þeirra verði beitt enn ákveðnar gegn brotum á alþjóðalögum. Einkum er spjótum beint að stjórnvöldum í Kína sem hafa aukið umsvif sín í Suður-Kínahafi verulega undanfarin ár.

Í skjali útgefnu af varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að bandarískur her hafi dagleg afskipti af rússneskum og kínverskum herflugvélum og -skipum. Þar segir einnig að ágengni þeirra fari vaxandi sem grafi undan núverandi skipan heimsmála.

Kínastjórn hefur eignað sér nánast allar eyjar í Suður-Kínahafi sem hefur vakið reiði nærliggjandi ríkja, Víetnam, Malasíu, Filippseyja og Brunei. Bandaríkjastjórn hefur sent herskip á svæðið til tryggja það sem hún kallar frelsi til siglinga. 

Á næstu árum hyggst bandaríski sjóherinn endurnýja flota sinn með smíði smærri og liprari skipa sem geti haldið í við mikla uppbyggingu kínverska herskipaflotans undanfarna tvo áratugi. Hann hefur þrefaldast á þeim tíma.

Í skjali varnarmálaráðuneytisins kemur einnig fram að sjóherinn verði sýnilegri á Kyrrahafi en verið hefur. Tilgangurinn er að hafa afskipti af ferðum Rússa og Kínverja og koma í veg fyrir brot á alþjóðalögum og ógnun við fullveldi annarra ríkja.   

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV