
Bandaríski sjóherinn boðar aukinn sýnileika og hörku
Í skjali útgefnu af varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að bandarískur her hafi dagleg afskipti af rússneskum og kínverskum herflugvélum og -skipum. Þar segir einnig að ágengni þeirra fari vaxandi sem grafi undan núverandi skipan heimsmála.
Kínastjórn hefur eignað sér nánast allar eyjar í Suður-Kínahafi sem hefur vakið reiði nærliggjandi ríkja, Víetnam, Malasíu, Filippseyja og Brunei. Bandaríkjastjórn hefur sent herskip á svæðið til tryggja það sem hún kallar frelsi til siglinga.
Á næstu árum hyggst bandaríski sjóherinn endurnýja flota sinn með smíði smærri og liprari skipa sem geti haldið í við mikla uppbyggingu kínverska herskipaflotans undanfarna tvo áratugi. Hann hefur þrefaldast á þeim tíma.
Í skjali varnarmálaráðuneytisins kemur einnig fram að sjóherinn verði sýnilegri á Kyrrahafi en verið hefur. Tilgangurinn er að hafa afskipti af ferðum Rússa og Kínverja og koma í veg fyrir brot á alþjóðalögum og ógnun við fullveldi annarra ríkja.