Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Bærinn er í rúst“

18.12.2020 - 17:47
Mynd með færslu
 Mynd: Seyðisfjarðarlistinn - RÚV
Hildur Þórisdóttir, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Seyðisfjarðar, segir að bærinn séu rústir einar eftir hamfarirnar síðustu klukkustundir. Íbúar séu í losti yfir atburðunum.

„Bærinn er í rúst. Tækniminjasafnið er farið, Silfurhöllin er farin, Samhúsið, Berlín og svo húsið sem færðist um fimmtíu metra í nótt. Þannig það er eins og það hafi lent sprenging á bænum. Ef maður horfir út Austurveginn þar sem bensínstöðin er, þar bara blasa við rústir og skriða. Þetta er súrrealískt ástand,“ sagði Hildur í viðtali við Síðdegisútvarpið. 

Hún segir gríðarleg læti hafa fylgt skriðunum. 

„Ég varð ekki vör við fyrri skriðurnar sem þóttu háværar, en það var eins og fjallið væri að hrynja hérna yfir bæinn í dag um þrjúleytið. Í margar mínútur. Og rafmagnið fór af bænum í kjölfarið. Sú skriða fór ekki fram hjá neinum,“ segir Hildur.

Íbúar á svæðinu séu afar slegnir.

„Fólk er frekar yfirvegað en samt bara algjörlega í losti. Hér er fólk sem hefur verið að missa húsin sín. Það hafa hús farið sem hefur verið sett mikið púður í að gera upp. En það er náttúrulega bara mildi að það hafi ekki orðið nein meiðsl á fólki. Það er náttúrulega fyrir öllu en auðvitað er fólkið slegið, mjög slegið,“ segir Hildur Þórisdóttir.