Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

3 þúsund skammtar af bóluefni á viku frá 27. desember

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir að frá og með 27. desember og fram í mars komi um þrjú þúsund skammtar á viku af bóluefni Pfizer og BioNTech. .Hún reiknar með að bólusetning hefjist á rúmlega þúsund framlínustarfsmönnum í heilbrigðisþjónustunni strax eftir jól og þá verður jafnframt hafist handa við að bólusetja fólk á hjúkrunarheimilum og öldrunarstofnunum.

Fréttin hefur verið uppfærð

Þetta kom fram í ræðu Svandísar á Alþingi þar sem rætt var um bóluefni. Síðar kom fram að í fyrstu sendingu kæmu tíu þúsund skammtar og svo þrjú þúsund skammtar á viku eftir það.

Hún benti réttilega á að ekkert bóluefni væri komið með markaðsleyfi í Evrópu en vonir stæðu til að Pfizer-bóluefnið fengið skilyrt markaðsleyfi þann 21. desember og Moderna-bóluefnið strax í byrjun janúar.

Öll þessi þrjú bóluefni yrðu því reiðubúin til afhendingar á fyrsta ársfjórðungi  og þeir skammtar sem Ísland hafi tryggt sér eigi að nægja til að ná fram hjarðónæmi. 

Svandís sagði það vera tryggt að við fengjum bóluefni í sama hlutfalli og önnur Evrópulönd.  Hún sagði mikilvægt að Íslendingar hikuðu ekki við að láta bólusetja sig. Ekki væri farið yfir nein öryggisstig í þróun bóluefnis heldur hefði öll sú reynsla sem lægi fyrir hjá þessum fyrirtækjum verið nýtt, ríflegt fjármagn og samstaða þjóða.

Hún var bjartsýn á að búið yrði að bólusetja þorra þjóðar á fyrstu tveimur ársfjórðungum næsta árs. Þá yrði hægt að huga að afléttingum og koma lífi landsmanna í eðlilegt horf.  „Við erum komin inn í þennan nýja kafla bóluefnis og höfum tryggt okkur nægt magn fyrir bólusetningu Íslands.“

Fréttin er í vinnslu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV