Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tvær fyrrum þingkonur vilja á þing fyrir Samfylkinguna

17.12.2020 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - RÚV - samsett mynd
Þrjár fyrrverandi þingkonur annarra flokka en Samfylkingarinnar sækjast eftir sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir næstu þingkosningar. Þær koma úr Vinstri grænum, Pírötum og Bjartri framtíð.

Samfylkingin birti lista í dag með nöfnum þeirra sem sækjast eftir sæti á framboðslista í Reykjavík í næstu Alþingiskosningum sem fara fram næsta haust. Þar vekur athygli að þrjár þingkonur sem hafa setið á þingi fyrir hönd annarra flokka sækjast eftir sæti á lista Samfylkingarinnar.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingkona sem var í Vinstri grænum þar til í september, Ásta Guðrún Helgadóttir sem sat á þingi fyrir Pírata á tímabilinu 2015-2017, og Nichole Leigh Mosty sem sat á þingi fyrir Bjarta framtíð á tímabilinu 2016-2017.

Ásta Guðrún, sem nú starfar sem sjálfstæður ráðgjafi, segist í samtali við fréttastofu telja Samfylkinguna best til þess fallna að leiða næstu ríkisstjórn og koma af stað mikilvægum samfélagsbreytingum. „Og mig langar að taka þátt í því að búa til breiðari Samfylkingu,“ segir hún. Áhersla Samfylkingarinnar á jöfnuð og réttlæti heilli hana en einnig áherslan á græna uppbyggingu. 

Spurð hvers vegna hún snúi baki við Pírötum segir hún flokkinn ekki hafa sýnt leiðtogahæfni og ekki hafa sýnt að hann geti leitt ríkisstjórn. 

Og sækistu eftir einhverju af efstu sætunum á öðrum hvorum listanum?

„Ég hef ekkert ákveðið um það, þetta er enn dálítið ný hugmynd fyrir mig,“ segir hún. Hún sjái ekki síst fyrir sér að geta verið flokknum innan handar í málefnum sem tengjast tæknimálum.

Rósa Björk, þingkona sem gekk til liðs við Samfylkinguna í gær og sagðist þá ekki viss hvort hún myndi sækjast eftir sæti í Reykjavík eða í Kraganum, er líka á listanum. Hún sagði í gær að áhersla Samfylkingarinnar á loftslagsmál hefði hrifið sig og að hennar pólitísku áherslur rímuðu almennt vel við áherslur flokksins. Hún var oddviti Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi þar til hún sagði sig úr flokknum í september. 

Ekki náðist í Nichole Leigh Mosty við gerð fréttarinnar.