Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þórólfur sóttvarnalæknir í sóttkví

17.12.2020 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, er kominn í sóttkví eftir að smit greindist hjá starfsmanni embættis Landlæknis. Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í samtali við fréttastofu.

Tveir aðrir starfsmenn á sóttvarnasviði eru einnig í sóttkví. Þórólfur fór í sýnatöku í dag og fékk neikvætt svar úr henni á sjöunda tímanum. Við tekur sjö daga sóttkví hjá Þórólfi og síðari sýnataka á Þorláksmessu. Að sögn Kjartans Hreins Njálssonar, aðstoðarmanns Landlæknis, er Þórólfur einkennalaus. Smitrakning er enn í gangi. 

Aðrir starfsmenn almannavarnadeildar Ríkislögeglustjóra þurfa ekki að fara í sóttkví en staðan verður endurmetin þegar smitrakning liggur fyrir. Kjartan Hreinn segir að í ljósi stöðunnar fari allir sérstaklega varlega og allt er gert til að lágmarka hættu á smiti. 

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, greindist með veiruna í byrjun desember og þurfti á tímabili að leita til Landspítala vegna mikilla veikinda. Hann er enn að ná sér eftir veikindin. Aðrir í teymi almannavarna þurftu ekki að fara í sóttkví vegna smits Víðis. 

Uppfært klukkan 18:25 - Þórólfur hefur fengið svar úr sýnatökunni og reyndist ekki smitaður af veirunni. Hann fer aftur í sýnatöku á Þorláksmessu eftir sjö daga sóttkví.