Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sóttvarnir veitingahúsa almennt til fyrirmyndar

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sótti á annan tug veitingahúsa í miðborg Reykjavíkur heim í gærkvöldi. Í dagbók lögreglunnar segir að flestir hafi verið til fyrirmyndar en á fjórum stöðum hafi þurft að benda á eitthvað sem betur mætti fara.

Tvennt var handtekið í nótt þar sem það var með hávaða og ónæði og vistað í fangageymslum sökum ástands síns. Nokkuð var um að rúður væru brotnar í fyrirtækjum í borginni í nótt, í einu tilfelli náðist sá sem að verki var og var hann fluttur á bráðadeild enda skorinn á höndum eftir framferðið.

Brotist var inn á nokkrum stöðum í borginni í nótt og skemmdarverk unnin. Í Neðra-Breiðholti voru póstkassar í anddyri fjölbýlishús brotnir upp og skemmdir og tilkynnt var um innbrot og spellvirki á bifreið sem stóð í bílageymslu í Grafarholti. Lögreglan lagði hald á búnað til heimabruggs í Efra-Breiðholti í gærkvöldi en framleiðandinn játaði brot sitt möglunarlaust.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV