Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ótti við saksókn hefur áhrif á störf hjúkrunarfræðinga

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Í nýrri rannsókn Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur, stjórnsýslufræðings og prófessors við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, koma fram skýrar áhyggjur meðal hjúkrunarfræðinga um að þeir þurfi að svara til saka ef eitthvað fer úrskeiðis í starfi þeirra.

Fréttablaðið greinir frá því í dag að tæplega 90 af hundraði hjúkrunarfræðinga telji mál hjúkrunarfræðings sem ákærður var fyrir manndráp af gáleysi árið 2014 hafi haft mikil áhrif á störf sín.

Könnun Sigurbjargar var lögð fyrir alla starfandi hjúkrunarfræðinga á síðasta ári sem segjast íhuga hvort og hvern þeir láti vita fari eitthvað úrskeiðis. Sömuleiðis hefur Fréttablaðið eftir Sigurbjörgu að hjúkrunarfræðingar myndu hugsa sig um áður en þeir tækju að sér aukavaktir þar sem mikið álag kann að vera.

Ótti við ákæru vofi alltaf yfir að sögn Sigurbjargar sem sé vandasamt því það þurfi að vera hægt að reiða sig á að teknar séu ákvarðanir sem ekki megi bíða og þekkingu sé beitt fumlaust.

Ásetningsbrot séu mjög fátíð í heilbrigðisþjónustunni en sé kallað eftir saknæmi, þegar eitthvað komi fyrir, sé líklegt að starfsmaður sé ekki tilbúinn að leggja öll spilin á borðið.