Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Navalny, Støjberg og farsóttin í Svíþjóð

Frá mótmælum stuðningsfólks Navalnys við sendiráð Rússlands í Berlín 16. september. - Mynd: EPA-EFE / EPA
Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræddu að þessu sinni við Boga Ágústsson um niðurstöðu ítarlegrar rannsóknar sem birtist á vefsíðunni Bellingcat fyrr í vikunni þar sem því er slegið föstu að rússneska leyniþjónustan FSB hafi staðið að baki er eitrað var fyrir stjórnarandstæðingnum Alexei Navalny í ágúst. Þá var rætt um Inger Støjberg málið í Danmörku og skýrslu sem er áfellisdómur yfir viðbrögðum sænskra stjórnvalda við COVID faraldrinum.

Støjberg málið

Inger Støjberg er fyrrverandi ráðherra útlendinga og innflytjenda í Danmörku. Niðurstaða rannsóknarnefndar er að Støjberg hafi gefið út ólögleg fyrirmæli er hún fyrirskipaði að láta aðskilja gifta hælisleitendur undir átján ára. Málið fer nú til meðferðar hjá danska þinginu og svo gæti farið að Støjberg verði leidd fyrir Landsdóm.

Falleinkunn í Svíþjóð

Sænsk stjórnvöld fá falleinkunn í skýrslu nefndar sem skipuð til að meta aðgerðir sóttvarnayfirvalda í baráttunni við kórónuveiruna. Nefndi segir að núverandi og fyrri ríkisstjórnir beri ábyrgð. Skýrslan er áfellisdómur yfir sænskum stjórnvöldum vegna viðbragða eða viðbragðsleysis við faraldrinum í vor.