Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Leggja til að loðnukvóti verði tæp 22 þúsund tonn

Mynd með færslu
 Mynd: Sighvatur Jónsson - RÚV
Hafrannsóknarstofnun leggur til að að loðnukvóti fyrir veturinn verði 21.800 tonn í stað fyrri ráðgjafar um að engin veiði fari fram. Ráðgjöfin verður endurmetin þegar niðurstöður mælinga í byrjun árs 2021 á stærð veiðistofnsins liggja fyrir.

Loðnumælingar voru gerðar í byrjun desember og er veiðiráðgjöfin byggð á niðurstöðum þeirra mælinga. Í október hafði Hafrannsóknarstofnun gefið út ráðleggingu þess efnis að engin veiði fari fram. 

Mælingarnar fóru fram við ágætis skilyrði en hafís í Grænlandssundi takmarkaði yfirferð norðvestan við land. Vestan til var aðallega ungloðnu að sjá en á austari hluta yfirferðarsvæðisins var nær eingöngu fullorðin loðna.

Stærð hrygningarstofnsins mældist 487,4 þúsund tonn. Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95 prósent líkur séu á að hrygningarstofninn í mars verði yfir 150. 000 tonnum að teknu tilliti til afráns.