Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Leggja fram á ný að hefja söluferli vegna góðrar afkomu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bankasýsla ríkisins lagði í dag fram tillögu á ný til fjármála- og efnahagsráðherra um að hefja sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka hf. strax á næsta ári. Í minnisblaði tillögunni til stuðnings kemur fram að vegna góðrar afkomu bankans og jákvæðri þróun á fjármálamörkuðum skuli stefna að frumútboði hluta en ekki beinni sölu til hliðar eins og tillaga stofnunarinnar frá 4. mars kvað á um.

Þann 16. mars afturkallaði bankasýslan tillögu sína til fjármálaráðherra frá 4. mars vegna mikilla breytinga í efnahagsmálum vegna kórónuveirunnar. Sú tillaga fjallaði um að selja að lágmarki fimmtungshlut (20%) í Íslandsbanka hf. í samhliða söluferli, þar sem aðallega yrði stefnt að skráningu eignarhluta á skipulegum verðbréfamarkaði í kjölfar almenns útboðs (útboðsleið) og til hliðar beinni sölu á hluta eða öllum eignarhlut ríkisins í bankanum (uppboðsleið). 

Vísitöluhækkanir og farsæl hlutabréfaútboð innanlands á árinu styðji við tillöguna

„Frá afturköllun tillögunnar hefur þróun á fjármálamörkuðum og afkomu Íslandsbanka aftur á móti verið mun betri en vonir stóðu til um miðjan mars mánuð. Frá 16. mars til 16. desember sl. hafa hlutabréf í íslenskum félögum (vísitala aðallista) hækkað um helming (50,0%) og hlutabréf í evrópskum bönkum (STOXX Euro 600 banka vísitalan) hækkað um tæpan þriðjung (32,4%).

Einnig hafa á þessu tímabili átt sér stað farsæl hlutabréfaútboð innanlands með mikilli þátttöku almennings. Þá hefur afkoma Íslandsbanka það sem af er árinu verið betri heldur en álykta má af sviðsmyndaspá Seðlabanka Íslands úr ritinu Fjármálastöðugleiki 2020/1 frá 1. júlí sl. Á sama tímabili eru aftur á móti afar fá dæmi um beina sölu eða sameiningar á bönkum í Evrópu. Í ljósi þessarar þróunar telur Bankasýsla ríkisins rétt að leggja fram tillögu um sölumeðferð á þessari stundu og stefna að frumútboði hluta, en ekki beinni sölu til hliðar eins og tillaga stofnunarinnar frá 4. mars sl. hljóðaði,“ segir í tillögunni.