Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Grásleppa sett í kvóta nái stjórnarfrumvarp í gegn

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í nýju frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er lagt til að tekin verði upp aflamarksstjórn, eða kvóti, við veiðar á grásleppu, sandkola í allri fiskveiðilandhelginni og sæbjúgum.

Auk þess er lagt til að heimilað verði að úthluta aflahlutdeild til veiða á staðbundnum nytjastofnum hryggleysingja þannig að sérstök aflahlutdeild komi fyrir hvert veiðisvæði.

Frumvarpið sem lagt var fram sem þingskjal í gær er til breytinga á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelginni og lögum um stjórn fiskveiða. Þar segir að ráðherra sé heimilt með reglugerð „að ákveða staðbundin veiðisvæði við grásleppuveiðar þannig að þar geti aðeins stundað veiðar bátar sem skráðir eru frá byggðarlagi við hlutaðeigandi veiðisvæði og útgerð bátsins eigi þar heimilisfesti.“

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ókostir núverandi veiðistjórnar grásleppu hafi komið vel í ljós á síðustu grásleppuvertíð. Veiðar hafi verið heimilaðar í tiltekinn fjölda daga en þegar á leið hafi ljóst orðið að stöðva yrði veiðarnar fyrr en ætlað var með hliðsjón af aflaráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

Það hafi komið misjafnlega niður á þeim sem veiðarnar stunduðu því mismunandi hafi verið hvenær þeir hófu veiðar. Í greinargerð starfshóps sem ráðherra skipaði 2018 kemur fram að núverandi tilhögun grásleppuveiða sé ómarkviss.

Það að veiðiheimildir séu bundnar ákveðnum dögum verði til þess að haldið sé til hafs í misjöfnum veðrum, ekki tekið tillit til bilana eða veikinda og magns meðafla. Jafnframt að ekki lægi fyrir í byrjun vertíðar hve marga daga hverjum leyfishafa sé heimilt að stunda veiðarnar.

Enn liggur ekki fyrir hvenær Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mælir fyrir frumvarpinu.