Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Foreldrar geti framselt sex vikur af fæðingarorlofi

17.12.2020 - 18:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Meiri hluti velferðarnefndar Alþingis leggur til að í stað þess að hvort foreldri fái að framselja einn mánuð af fæðingarorlofstíma til hins foreldrisins megi það framselja sex vikur. Þetta verði gert til að auka sveigjanleika í orlofstöku.

Í nýju nefndaráliti meirihlutans um frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, til laga um fæðingar- og foreldraorlof segir að fyrir nefndinni hafi komið fram ýmis sjónarmið um skiptingu réttarins milli foreldra og að helst hafi verið skiptar skoðanir um hvort rétt væri að miða við jafnan sjálfstæðan rétt hvors foreldris um sig, eins og frumvarpið mælir fyrir um, eða halda í það fyrirkomulag sem hefur gilt, að hafa ákveðinn fjölda mánaða sameiginlegan. 

Með nýju frumvarpi lengist fæðingarorlof úr 10 mánuðum í 12 mánuði og upphaflega stóð til að orlofinu yrði jafnt skipt milli foreldra, með heimild til hvors foreldris til að framselja einn mánuð til hins. 

Virk þátttaka beggja foreldra skipti máli

Í álitinu er bent á alþjóðlegar rannsóknir sem sýna að virk þátttaka beggja foreldra í umönnun barnsins hafi jákvæð áhrif á alhliða þroska þess og að ekkert sé líklegra til að ýta undir virka þátttöku en orlofstaka beggja foreldra. Þá segir að fyrir nefndinni hafi verið „vakin athygli á því að samkvæmt rannsóknum hafi umönnunarþátttaka feðra margvísleg jákvæð áhrif á líf barna til lengri tíma, m.a. á hegðun, andlega líðan og félagslega stöðu barna, þar sem hegðunarvandamálum drengja fækkar og sjálfstraust stúlkna eykst“.

Reynslan hafi verið sú að foreldri sem gengur með barnið nýti í langflestum tilvikum þann rétt sem foreldrar geti skipt með sér. „Þannig sýni tölulegar upplýsingar frá Fæðingarorlofssjóði að sá tími sem er eyrnamerktur því foreldri sem ekki gengur með barnið verði að viðmiði um þann tíma sem teljist hæfilegt að það foreldri taki í fæðingarorlof,“ segir í álitinu.

Stuðli að bættri stöðu kynja á vinnumarkaði

Tuttugu ár eru síðan sjálfstæður réttur feðra til þriggja mánaða orlofs var festur í lög „með það að markmiði að stuðla að jafnri foreldraábyrgð sem og jafnri stöðu kynjanna á vinnumarkaði“. Í álitinu segir að þó sé umönnun barna enn ekki jafnt skipt milli foreldra, launamunur kynjanna sé staðreynd og karlar virðist almennt eiga auðveldara með framgang í starfi. „Í ljósi þessa telur meiri hlutinn til mikils að stuðla að jafnari töku fæðingarorlofs og sjálfstæðum rétti til þess,“ segir þar. 

Sjálfstæður réttur til töku fæðingarorlofs, og jöfn skipting milli foreldra, sé best til þess fallinn að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf og nýtist líka sem öflugt vinnumarkaðsúrræði sem stuðli að bættri stöðu kynja á vinnumarkaði og jafnari launakjörum. Þá tryggi hann rétt barns til að umgangast báða foreldra.

Mæta sjónarmiðum um sveigjanleika

Til þess að mæta sjónarmiðum þeirra sem kalla eftir auknum sveigjanleika í orlofstöku leggur meiri hlutinn hins vegar til að foreldri verði heimilt að framselja allt að sex vikur af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins, í stað eins mánaðar. Ákvæðið í lögunum um skiptingu milli foreldra skuli endurskoða á innan við tveggja ára tíma frá gildistöku laganna.