Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fólksfjölgun hæg en Íslendingar yngri en íbúar ESB

17.12.2020 - 16:13
Mynd með færslu
 Mynd: Unsplash
Samkvæmt miðspá mannfjöldaspár Hagstofu Íslands verða íbúar landsins 461 þúsund árið 2069, bæði vegna fólksflutninga og vegna náttúrulegrar fjölgunar. Til samanburðar var mannfjöldinn 364 þúsund 1. janúar í ár. Hagstofa Íslands hefur framreiknað mannfjöldann fyrir tímabilið 2020-2069 á grundvelli tölfræðilíkana fyrir búferlaflutninga, frjósemi og dánartíðni.

Samkvæmt spánni mun fólksfjölgun á Íslandi verða fremur hæg. Dánir verða fleiri en fæddir á hverju ári frá og með árinu 2060 samkvæmt miðspá en frá og með árinu 2037 samkvæmt lágspánni. Hinsvegar fæðast fleiri en deyja á hverju ári spátímabilsins samkvæmt háspánni.

Mynd með færslu
 Mynd: Hagstofa Íslands

Þá eru Íslendingar nú, og verða enn um sinn, mun yngri en íbúar ríkja Evrópusambandsins að meðaltali. Árið 2060 er reiknað með að meira en þriðjungur Evrópubúa verði eldri en 65 ára en einungis um fjórðungur Íslendinga.

Meðalaldur kvenna lengist um 4,6 ár, karla um 4,5

Meðalævi karla og kvenna hér við fæðingu mun halda áfram að lengjast. Nýfæddar stúlkur árið 2020 geta vænst þess að verða 84,1 ára gamlar en nýfæddir drengir 79,9 ára. Stúlkur sem fæðast árið 2068 geta vænst þess að verða 88,7 ára en drengir 84,4 ára. 

Brottfluttir ríkisborgarar fleiri en aðfluttir

Aðfluttir verða fleiri en brottfluttir á hverju ári, fyrst og fremst vegna erlendra ríkisborgara sem flytjast til landsins. Íslenskir ríkisborgarar sem flytjast frá landinu verða áfram fleiri en þeir sem flytjast til landsins. Undanfarin ár hafa mun fleiri karlar en konur flust til landsins. Í ársbyrjun 2020 voru 1.055 karlar á hverjar 1.000 konur. Gert er ráð fyrir að þessi ójöfnuður vaxi næstu ár en síðan dragi úr honum.

Gerð voru þrjú afbrigði af framreikningnum; miðspá, háspá og lágspá sem byggja á mismunandi forsendum um hagvöxt til næstu fimm ára, frjósemishlutfalli og búferlaflutningum. Einnig er gerð grein fyrir þróun mannfjöldans og samsetningu á tímabilinu. Hagstofan birti spána í dag og hefur undanfarin ár birt árlega nýja útgáfu af spá um mannfjöldaþróun til næstu 50 ára.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV