Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fólk megi ekki gleyma sér þrátt fyrir gott gengi

17.12.2020 - 19:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Vísindafólk við Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítalann hafa gefið út uppfært spálíkan um þróun kórónuveirufaraldursins. Í nýrri færslu á Facebook segir Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, að þeim lítist ekkert of vel á blikuna. Þau séu þó bjartsýn og að með öflugri smitrakningu og sóttvarnaráðstöfunum megi halda faraldrinum niðri.

Í samantekt á covid.hi.is sem var birt í dag segir að síðustu dagar bendi til þess að fjöldi smita fylgi sviðsmynd sem sett var fram 26. nóvember. Smitstuðull utan sóttkvíar hafi náð viðsnúningi og lækkað undir 1. Hann sé nú 0.55.

Mynd með færslu
 Mynd: HÍ
Spá um þróun COVID-19 á Íslandi frá 26. nóvember. Svartir punktar notaðir til að búa til spá. Appelsínugulir punktar eru raunveruleg þróun. Dökkblár litur táknar 50% líkindabil. Ljósblár 95% líkindabil.

Í samantektinni er bent á að ekki hafi tekist að ná smitum alveg niður og heldur ekki efri mörkum smitstuðulsins. Fjöldi smita undanfarna daga geti ennþá leitt af sér veldisvísisvöxt samkvæmt fræðunum. Þess vegna verði fólk að fara varlega áfram og megi ekki gleyma sér þrátt fyrir gott gengi.

Blikur á lofti með auknum umsvifum

Í samantektinni segir að nú séu blikur á lofti, enda hafi umsvif í samfélaginu aukist upp á síðkastið. Umsvifin eru til dæmis metin með gögnum frá Facebook yfir daglega hreyfingu notenda. Þau sýna að frá því í byrjun nóvember og þar til núna hafi fólk verið sífellt meira og meira á ferðinni um höfuðborgarsvæðið. Samkvæmt gögnunum hríðféll hreyfing fólks í marsmánuði og fór að aukast aftur þegar leið á vorið. Hún náði hámarki um mánaðamótin júní-júlí og dróst saman þar til í byrjun nóvember.  

Óttast nýja bylgju í janúar

Finnska spálíkanið sem íslensku tölfræðingar styðjast gjarnan við gefur til kynna að hægt verði að ná faraldrinum niður með ítrustu aðgerðum og að núverandi aðgerðir nái að halda í við faraldurinn fram í janúar. Svo komi ný bylgja sem nái þó ekki sömu hæðum og fyrri bylgjur hafa gert. 

„Vonandi getum við náð jafnvægi og siglt þarna á milli með áframhaldandi núverandi aðgerðum áfram og þeirri öflugu smitrakningu sem er hér á landi. Við teljum að áhrif smitrakningar séu vanmetin fyrir Ísland í þessum alþjóðlegu líkönum,“ segir í samantektinni.

Verðum að virða sóttkví við heimkomu

Sérstaklega er fjallað um að álagið á landamærunum hafi aukist og því sé mikilvægara en nokkru sinni fyrr að virða sóttkví eftir heimkomu. „Ef fólk velur tvöfalda skimun og virðir 5-daga sóttkví á milli skimana sleppur minna en 1 smit í gegn með hverjum 10.000 ferðalöngum,“ segir í samantektinni og að tvöföld skimun á landamærum með 5 daga sóttkví á milli sé því líkindafræðilega örugg leið. „Mannleg hegðun getur unnið á móti þessu. Sóttkvíin er 5 dagar sem er ekki langur tími miðað við tímann sem fer í umstang og veikindi ef smit lekur út,“ segir þar jafnframt. 

Ísland í góðri stöðu miðað við nágrannaríkin

Ísland er í góðri stöðu miðað við nágrannaríkin og smittíðnin hér er lægri en í flestum löndum í kringum okkur. Í samantektinni segir að ef staðan á Íslandi væri eins og hún er núna í Svíþjóð greindust hér 200 smit á dag og ef við værum jafnilla sett og Danir greindust hér 180 á dag.

Góðri stöðu Íslands verði aðeins unnt að viðhalda með þátttöku almennings í sóttvarnaaðgerðum yfirvalda, og með því að viðhafa persónulegar sóttvarnir, halda tveggja metra fjarlægð og virða tíu manna samkomutakmarkanir. Þá þurfi að leggja áherslu á grímunotkun og koma í veg fyrir ferðir á fjölmenna staði.

„Veiran er lúmsk og getur skotið upp kollinum þó við teljum okkur hafa fylgt öllum leiðbeiningum og teljum okkur örugg. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að af litlum neista verði mikið bál,“ segir í samantektinni að lokum.