Færa flugeldasýningar til að forðast hópamyndanir

Færa flugeldasýningar til að forðast hópamyndanir

17.12.2020 - 22:12

Höfundar

Flugeldasýningar verða með breyttu sniði um áramótin og allt gert til að forðast það að fólk hópist saman við sýningarnar. Þá verður opnunartími sölustaða flugelda lengdur og flugeldar seldir í netverslun.

Flestöllum áramótabrennum hefur nú verið aflýst og sömu fjöldatakmarkanir gilda auðvitað við flugeldasýningar sem gjarnan eru haldnar við brennurnar. 

„Erum ekki að hvetja fólk til að koma og hópast saman“

Landsbjörg hvetur sínar sveitir til að halda sýningar og því þarf að finna nýjar leiðir. „Og sveitir velji skotstaði eftir þessum sóttvarnarreglum. Við erum ekki að hvetja fólk til að koma og hópast saman,“ segir Róbert Hnífsdal, verkefnastjóri innkaupa og sölu hjá Landsbjörgu.

Fólk geti horft heima á svölum eða í bílnum

Gunnlaugur Búi Ólafsson, formaður Björgunarsveitarinnar Súlna á Akureyri, segir að finna verði nýjan stað fyrir flugeldasýninguna þar. „Auðvitað þýðir það að flugeldasýningin verði kannski úr meiri fjarlægð heldur en venjan er. En það er bara hlutur sem við verðum að lifa við þetta árið. Fólk þarf kannski að njóta hennar heima hjá sér úti á svölum, eða í bílnum sínum, eða hvar sem það kýs þetta árið. En bara helst ekki í hóp.“

Flugeldasýning ómissandi hjá mörgum

Flugeldasýning er ómissandi hluti áramótanna hjá mörgum. Róbert segir að þetta sé ákveðið „show“ sem laði fólk að. „Fólk sér að þessi tími er að koma, við erum aðeins að hita upp fyrir ármótin. En jafnframt er þetta mjög mikilvæg fjáröflun hjá sumum sveitum,“ segir hann. Gunnlaugur Búi tekur undir þetta og segir sýningarnar mikilvægan þátt fyrir björgunarsveitarfólkið persónulega. „Við höfum alltaf litið á þetta sem okkar þakklætisvot til lfólksins.“

Opnunartími lengdur og flugeldar seldir í netverslun

En flugeldasalan er enn mikilvægari fjáröflun og þar eru takmarkanir eins og hjá öðrum verslunum. „Já við erum búin að vera svolítið á nálum. Hvað ætla Þórólfur og þríeykið að gera í kringum áramótin? Og ég held að við séum bara tilbúin í slaginn,“ segir Róbert. Og ýmislegt er gert til að dreifa álaginu vil söluna. Þannig eru yfir 30 sölusíður með flugelda tilbúnar hjá björgunarsveitum landsbjargar og opnunartími sölustaða flugelda verður lengdur. „Við verðum með opið alla daga frá hálf níu á morgnana, til hálf tólf á kvöldin, til þess að reyna að teygja á opnunartimanum og leyfa fólki þá að koma þegar því hentar,“ segir Gunnlaugur Búi.

Tengdar fréttir

Seltjarnarnesbær

230 ára gömul hefð rofin á gamlárskvöld

Mannlíf

Engar áramótabrennur á höfuðborgarsvæðinu

Umhverfismál

Segir hertar reglur um flugelda íþyngjandi

Innlent

Flugeldasýning á Skólavörðuholti