Býr til ost og konfekt úr sauðamjólk

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn

Býr til ost og konfekt úr sauðamjólk

17.12.2020 - 08:30

Höfundar

Í félagsheimilinu Végarði í Fljótsdal hefur Ann-Marie Schlutz komið sér fyrir með framleiðslu á afurðum úr sauðamjólk, undir nafni Sauðagulls. „Ég kom til Íslands 2016 og sá bara alls staðar fullt af kindum en engan sauðaost og það fannst mér svolítið skrítið,“ segir Ann-Marie.

Mjólkar ær vor og haust

Ann-Marie ræddi þetta við tengdafjölskyldu sína í Fljótsdal og haustið 2018 prófaði hún fyrst að mjólka ærnar á bænum. Verkefnið vatt upp á sig og nú eru kindurnar mjólkaðar vor og haust. Í ár söfnuðu þau tæplega 250 lítrum.  

Gerir konfekt úr mysunni sem er aukaafurð

Fyrst prófaði Ann-Marie að búa til ost úr sauðamjólkinni: „Svo fór ég að hugsa hvað get ég gert með mysuna sem er afgangsafurð úr ostagerðinni og fékk þá hugmynd að gera karamellu.“

Skoðar að framleiða ís úr sauðamjólk

Ann-Marie hefur síðustu ár selt vörur sínar á mörkuðum en reiðir sig nú, eins og fleiri, á internetið og nokkrar verslanir. „Mig langar að stækka aðeins við hráefnismagnið en mig langar ekki að vera stórframleiðandi. En mig langar til að prófa alls konar, eins og ís- og ostategundir og ég get ímyndað mér að fara meira út í sælgæti.“