Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Úthlutað úr Matvælasjóði í fyrsta sinn

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið - RÚV
Úthlutað var úr Matvælasjóði í fyrsta sinn í morgun. Matvælasjóður leysir af hólmi Framleiðnisjóð og AVS rannsóknarsjóðs í sjávarútvegi. 62 verkefni hlutu styrki fyrir tæpar 500 milljónir. Eftirspurnin var talsvert meiri, eða fyrir 2,8 milljarða.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra sagði við úthlutunina að meginástæða þess að setja Matvælasjóðinn á koppinn sé áhersla að framleiða skuli matvæli til að koma okkur út úr því ástandi sem nú ríkir. 

„Við erum matvælaþjóð og höfum verið lengi. Við byggjum afkomu okkar á því að nota auðlindir okkar með sjálfbærum hætti, bæði til sjós og lands. Þessi áhersla sem er okkur í grunnin eðlislæg er kjarnahlutverk Matvælasjóðs, að styðja og styrkja verðmætasköpun við framleiðslu, vinnslu og markaðssetningu  matvæla.“ sagði Kristján Þór. 

Kristján segir að áhersla hafi verið lögð á að styrkja verkefni um allt land og að markmiðið sé að styðja við verkefni sem eiga sér stað sem næst framleiðslunni. 

Gréta María Grétarsdóttir, formaður stjórnar Matvælasjóðs fór yfir þau verkefni sem hlutu styrk að þessu sinni. Til stóð að úthluta úr sjóðnum í október en vegna þess hversu margar umsóknir bárust varð töf á því. Næst verður úthlutað úr sjóðnum á vormánuðum 2021.

„Við fyrstu úthlutun og yfirferð umsókna kom ýmislegt í ljós sem við sjáum að hægt er að bæta úr sem gert verður fyrir næstu úthlutun. Við hvetjum alla sem fengu ekki styrk að þessu sinni til að vinna áfram í sínum hugmyndum enda stutt í næstu úthlutun sem fer fram í vor og stefnum við á að opna fyrir umsóknir í mars. Samhliða ætlum við að bjóða upp á rafrænt námskeið fyrir umsækjendur sem auglýst verður síðar. Einnig mun styrkþegum standa til boða að sækja rafræn námskeið sem munu vonandi auka líkur á að verkefnin náin tilsettum markmiðum.“ sagði Gréta.

62 verkefni styrkt

500 milljónum var veitt í stofnframlag til sjóðsins og 250 milljónir til viðbótar verður úthlutað úr sjóðnum á næsta ári. Það verður gert á vormánuðum. 62 verkefnum verður boðið að ganga til samninga við Matvælasjóð fyrir samtals 480 milljónir króna. 266 umsóknir bárust í 4 styrkjaflokka Matvælasjóðs og var sótt um fyrir 2,2 milljarða króna. Flokkarnir nefnast Báran, Kelda, Afurð og Fjársjóður. 

Flestar umsóknir bárust í Báruna sem er flokkur sem er helgaður að því að kanna fýsileika, greina og útfæra hugmynd tengda matvælaframleiðslu. Flokkurinn er ætlaður einstaklingum og smærri fyrirtækjum. 121 umsóknir voru styrkhæfar í þeim flokki og hlutu 36 verkefni styrk fyrir samtals 97 milljónir króna. 

Í Keldu hljóta 9 verkefni styrk fyrir samtals 157 milljónir króna. Kelduflokknum er ætlað að styrkja verkefni til að afla nýrrar þekkingar í nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpunar og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu. 

Afurð er flokkur sem snýr að verkefnum sem eru komin af hugmyndastigi en eru ekki tilbúin til markaðssetningar. Þar fengu átta verkefni styrk fyrir samtals 100 milljónir. 

Fjórði flokkurinn er Fjársjóður þar sem styrkjum er veitt til fyrirtækja vegna styrkingar markaðsinnviða og sóknar afurða tengdum íslenskri matvælaframleiðslu. Verkefnin tengjast markaðssetningu á innanlandsmarkaði og utan landsteinanna.  Átta verkefni hljóta styrk fyrir 106 milljónir króna.

Prótein, streita og hákarl

Hæsti einstaki styrkurinn sem veittur var í morgun er til Síldarvinnslunnar á Neskaupstað til verkefnisins Prótein úr hliðastraumum makríls , Matís vegna verkefnisins Streita Laxfiska og Matís vegna verkefnisins  Hákarlsverkun í Bjarnarhöfn. Þessi þrjú verkefni hljóta hver um sig um 22 milljónir í styrk.

Glærusýningu úthlutunarinnar og lista yfir alla sem hlutu styrk má sjá hér.

 Þá má einnig sjá útsendingu frá úthlutuninni hér.