Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skuldsetning ríkisins gæti leitt af sér skattahækkanir

16.12.2020 - 04:02
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Ingólfur Bender aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins segir íslenska ríkið þurfa meiri skattheimtu, niðurskurð eða hagvöxt til að grynnka á skuldum í framtíðinni.

Þetta er haft eftir Ingólfi í markaði Fréttablaðsins í dag og jafnframt að Anna Hrefna Ingimundardóttir aðalhagfræðingur SA telur aukna skuldsetningu ríkissjóðs að líkindum leiða til skattahækkana. Óábyrgt sé að treysta á hagvöxt til grynnkunar skulda.

Í umfjöllun blaðsins segir að íslenska ríkið sé verr í stakk búið að rétta úr kútnum eftir kórónuveirukreppuna en önnur vestræn ríki. Því valdi hækkun langtímavaxta en standist fjármálaáætlun megi búast við að vaxtabyrði ríkissjóðs verði 2,14 prósent af landsframleiðslu árið 2025. Vaxtabyrði verði neikvæð í Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku.

Haft er eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanni Landssamtaka lífeyrissjóða, að sjóðirnir séu ekki hagstjórnartæki sem ríkið grípi til þegar gefi á bátinn. Skilningur ríki á fjárþörf ríkisins en sjóðirnir geti ekki látið undan þrýstingi um að fjármagna ríkisskuldir.