Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Senda sérfræðingahóp til að rannsaka uppruna COVID-19

epa08168539 A fully protected nurse takes a phone call beside her ambulance in Wuhan, Hubei province, China, 26 January 2020 (issued 27 January 2020). According to media reports, Wuhan is widely considered as the origin point of the coronavirus outbreak. The virus outbreak has so far killed at least 56 people with around 2,000 infected, mostly in China.  EPA-EFE/YUAN ZHENG CHINA OUT
 Mynd: EPA-EFE - FEATURECHINA
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sendir tíu manna sérfræðingahóp til borgarinnar Wuhan í Kína í janúar til að rannsaka uppruna COVID-19. Stofnunin hefur staðið í margra mánaða samningaviðræðum við kínversk yfirvöld til að fá leyfi til að senda alþjóðlegan sérfræðingahóp til borgarinnar.

AP-fréttastofan hefur eftir einum sérfræðinganna, Fabian Leendertz frá Robert Koch-stofnuninni í Þýskalandi, að markmið ferðarinnar sé ekki að finna sökudólg, heldur að rannsaka orsök kórónuveirufaraldursins og minnka líkurnar á að faraldur á borð við hann brjótist út á ný.

Hópurinn rannsakar meðal annars hvort faraldurinn hafi átt upptök sín í Wuhan, hvernig veiran barst úr dýrum í menn og hvort COVID-19 tilfelli kunni að hafa komið upp fyrr en talið hefur verið. Búist er við að leiðangurinn standi yfir í fjórar til fimm vikur.

Flestir vísindamenn telja SARS-COV-2 veiruna sem veldur COVID-19 fyrst aðeins hafa þrifist í leðurblökum. Hún hafi jafnvel borist milli leðurblaka í einhverja áratugi áður en hún barst til manna. Fyrstu COVID-19-tilfellin greindust í kínversku borginni Wuhan seint í desember í fyrra og eru rakin til matarmarkaðar. Síðan þá hafa um 73,4 milljónir greinst með sjúkdóminn um allan heim og 1,63 milljónir látið lífið.