Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segir lög um kynrænt sjálfræði tímamót á heimsvísu

16.12.2020 - 12:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður Samtakanna '78 segir það verða mikil tímamót, ekki bara á Íslandi heldur heimsvísu, þegar Alþingi samþykkir frumvörp um kynrænt sjálfræði. Þau séu risastór réttarbót.

Frumvörpunum þremur er ætlað að tryggja rétt fólks með kynhlutlausa skráningu og trans fólks auk barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.

Í fyrsta frumvarpinu um kynrænt sjálfræði er lagt til að réttur til að breyta skráningu kyns og samhliða því þá nafni miðist við 15 ára aldur, en var 18 ár. Þá er einnig gert ráð fyrir að börn yngri en 15 ára  geti breytt opinberri skráningu kyns síns með fulltingi forsjáraðila sinna. Einnig er lagt til að takmarkanir í eldri lögum um kynrænt sjálfræði frá árinu 2019, sem kveða á um að aðeins einu sinni sé hægt að breyta skráningu kyns, nema sérstakar ástæður séu, gildi ekki um fólk yngra en 18 ára.

Í öðru frumvarpi forsætisráðherra um kynrænt sjálfræði er lagt til að meginreglan verði sú að varanlegar breytingar á kyneinkennum barns yngri en 16 ára, sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni, skuli einungis gerðar í samræmi við vilja barnsins. Sé barnið ófært sökum ungs aldurs að veita slíkt samþykki eða af öðrum orsökum ófært um að láta vilja sinn í ljós, skal heimilt að breyta kyneinkennum varanlega ef heilsufarslegar ástæður krefjast þess. En þá þarf ítarlegt mat á nauðsyn breytinganna og afleiðingum þeirra að liggja fyrir.

Í þriðja frumvarpinu eru síðan lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem ætlað er að tryggja réttindi fólks þar sem hlutlaus skráning kyns er heimil. Í lögum þar sem kyngreining finnst, eins og karl og kona, verði að gera ráð fyrir þeim sem kjósa hlutlausa kynskráningu. Einnig eru lagðar til breytingar sem tryggja foreldrastöðu trans fólks og fólks með hlutlausa kynskráningu. Formaður Samtakanna '78 fagnar því að nú hilli undir nýju lögin.

„Já, þetta eru sannarlega mikil tímamót í réttindabaráttu hinsegin fólks, ekki bara á Íslandi heldur líka á heimsvísu vegna þess að það eru ekki mörg ríki sem hafa tryggt vernd fyrir intersex einstaklinga eða börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni,“ segir Þorbjörg Þorvaldsdóttir.

Hún segir í þessu skipta mestu máli að hætt verði að gera ónauðsynleg inngrip í líkama barna með ódæmigerð kyneinkenni. Þetta sé risastór réttarbót.

„Þetta skiptir bara virkilega miklu máli og þetta verður vonandi löggjöf sem önnur ríki munu líta til.“

Umræðan á Alþingi um málið hefur verið hörð á köflum. Þorbjörg segir afstöðu Miðflokksins í málinu hafa komið sér á óvart í haust, en geri það ekki lengur þar sem afstaða flokksins sé löngu ljós.

„En svona heilt yfir þá finnst mér voðalega skrýtið að það sé hérna fólk að tala gegn réttindum hinsegin fólks árið 2020 og ég held að þetta sé fyrst og fremst vandræðalegt fyrir þann flokk sem á í hlut.“

 

 

 

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV