Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rósa Björk vill sæti á lista í Reykjavík eða í Kraganum

16.12.2020 - 17:51
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona sem gekk í dag til liðs við Samfylkinguna, segist munu sækjast eftir sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu eða í Suðvesturkjördæmi, fyrir næstu Alþingiskosningar. Hún segir að enn sé óljóst hvaða kjördæmi henni hugnist best en að hún taki ákvörðun á næstu dögum.

Rósa Björk býr í Reykjavík en var oddviti Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi áður en hún sagði sig úr flokknum í september.

Ráðgefandi könnun í Reykjavík send út á morgun

Samfylkingin sendir á morgun út lista til flokksfélaga í Reykjavík með nöfnum þeirra sem sækjast eftir sæti á lista fyrir næstu Alþingiskosningar. Félögum gefst færi á að kjósa frambjóðendur og uppstillingarnefnd hefur niðurstöðuna til hliðsjónar við uppstillingu. Þótt Rósa Björk hafi gengið í flokkinn í dag segir hún óljóst hvort hún sækist eftir sæti í Reykjavík.

„Ég hef ekki ennþá tekið þá ákvörðun. Það er náttúrulega verið að leita eftir nöfnum hér í Reykjavík en sömuleiðis er ég líka fyrrverandi oddviti í fjölmennasta kjördæmi landsins, Suðvesturkjördæmi. En ég á eftir að taka þá ákvörðun en geri það nú bara á næstu dögum líklega,“ segir hún í samtali við fréttastofu. „Það er höfuðborgarsvæðið sem er undir,“ bætir hún við. 

Aukin áhersla á umhverfismál heillaði

Rósa segir flutninginn yfir til Samfylkingarinnar ekki hafa átt sér langan aðdraganda. „En það er ekkert leyndarmál að stjórnmálastefna Samfylkingarinnar rímar vel við mínar pólitísku áherslur, þegar kemur að því að auka jöfnuð í samfélaginu óháð stétt og stöðu. Og líka áherslur á sjálfbærni samfélagsins og fjölbreytileika í samfélaginu og opna utanríkisstefnu. En ég lét af verða vegna aukinnar áherslu Samfylkingarinnar á græna uppbyggingu og umhverfismálin og loftslagsmálin sem þau hafa tekið fastari og sterkari tökum undanfarið, bæði í borginni og líka inni á þingi,“ segir hún og bætir við að Vinstri grænum hafi gengið mjög erfiðlega að ná fram grænum áherslum í ríkisstjórnarsamstarfinu. 

En hver verður staða þín í þingflokki Samfylkingarinnar? Tekurðu sæti í nefndum?

„Ég sit eins og er í utanríkismálanefnd. Við eigum bara eftir að sjá hvort það haldi áfram. En mér var vel tekið og ég hlakka mjög mikið til þessa samstarfs við gott fólk með hjartað á réttum stað.“

Ertu bjartsýn fyrir hönd Samfylkingarinnar í Alþingiskosningum eftir tæpt ár?

„Ég held að sjónarmið Samfylkingarinnar eigi að vera í ríkisstjórn, já.“

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV