
Rósa Björk sat sinn fyrsta þingflokksfund núna klukkan eitt. Hún gekk inn á fundinn við dynjandi lófatak þingflokksins. Rósa Björk studdi ekki ríkisstjórnarsamstarf núverandi stjórnarflokka í nóvember 2017 en það gerði heldur ekki Andrés Ingi Jónsson en hann er enn utan flokka á Alþingi.
Rósa Björk gaf frá sér yfirlýsingu nú á öðrum tímanum sem er svohljóðandi:
„Í dag gekk ég til liðs við þingflokk Samfylkingarinnar en ég hef verið óháður þingmaður á Alþingi síðastliðna 3 mánuði. Pólitískar áherslur mínar og Samfylkingarinnar eru nátengdar með mikilvægi á aukinn jöfnuð í samfélaginu þar sem allir geta notið sín á eigin forsendum, burtséð frá stétt eða stöðu en líka á frið og sjálfbærni og opið, framsækið og fjölbreytt samfélag með áherslu á virka fjölþætta utanríkisstefnu. Að undanförnu hefur Samfylkingin að auki lagt mun meiri og skýrari þunga á loftlagsmálin, og umhverfismálin en áður og lagt fram góða áætlun um græna viðspyrnu út úr Covid-19 kreppunni. Það gerir útslagið fyrir mig þegar kemur að því að taka þessa ákvörðun um að ganga í Samfylkinguna og þingflokk hennar. Ég hlakka mjög mikið til að taka þátt í starfi Samfylkingarinnar og að leggja mitt á vogarskálarnar til að bæta íslenskt samfélag“ segir í yfirlýsingunni.
Rósa sagði sig úr þingflokki VG og hreyfingunni í kjölfar þess að mál egypskrar fjölskyldu sem vísa átti úr landi. Þá sagði hún að málið hafi orðið til þess að hún finni endanlega enga samleið lengur með þingflokki VG.
Samfylkingin hefur þar með átta sitjandi þingmenn. Ríkisstjórnin hefur þriggja þingmanna meirihluta, 33 þingmenn á móti 30 í stjórnarandstöðu.
Fréttin hefur verið uppfærð með yfirlýsingu Rósu Bjarkar.