Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Met í útlánum slegin hvert á fætur öðru

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjöldi landsmanna hefur gripið tækifærið vegna sögulega lágra vaxta Seðlabankans og tekið ný húsnæðislán eða endurfjármagnað eldri. Hvert metið í útlánum á fætur öðru hefur verið slegið á síðustu mánuðum. Þeim sem fá greiddar húsnæðisbætur hefur fækkað.

Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Stýrivextir Seðlabankans eru í sögulegu lágmarki eða 0,75%. Bankar hafa einnig lækkað breytilega vexti bæði á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum, um 0,1 til 0,2 prósentustig en Landsbanki og Íslandsbanki hækkað fasta óverðtryggða vexti. Sumir lífeyrissjóðir hafa einnig lækkað verðtryggða vexti.

Í sögulegu samhengi eru vextir því áfram afar lágir og vaxtamunur á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum einnig með allra lægsta móti. Þetta hefur aukið vinsældir óverðtryggra lána en fæstir lífeyrissjóðir bjóða upp á slík lán. Þeir sem það gera bjóða þau með hærri vöxtum en bankar.

Af þessum sökum hafa margir ákveðið að færa íbúðalán sín frá lífeyrissjóðum til bankanna, að mati hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Það er augljóst af tölum um hrein ný útlán hjá bönkum sem voru talsvert hærri í október en mánuðina á undan þó svo að hvert metið á fætur öðru hafi verið slegið.

Af lánum í október voru hrein ný óverðtryggð lán um 56 milljarðar króna en hrein ný verðtryggð lán voru neikvæð um tíu milljarða og af þeim voru um níu milljarðar neikvæðir hjá lífeyrissjóðum. Þannig námu hrein ný útlán um 46 milljörðum króna í október. Í júlí voru þau neikvæð um fimm milljarða króna og hagdeildin segir því ljóst að um miklar uppgreiðslur sé að ræða hjá lífeyrissjóðunum sem þýðir að fólk taki lán hjá bönkum til að greiða upp lán hjá lífeyrissjóðum.

Neytendur kjósa í auknum mæli húsnæðislán með föstum vöxtum í stað breytilegra sem er mikil breyting frá því sem áður var. Rúmlega fjórðungur hreinna nýrra útlána banka í október var með föstum vöxtum en voru um tólf prósent í september. Frá því í september í fyrra hafa hrein ný útlán á föstum óverðtryggðum vöxtum verið neikvæð sem að mati hagdeildarinnar bendir til þess að neytendur búi sig undir að vaxtahækkanir séu í kortunum. Venjan er að óverðtryggð lán á föstum vöxtum fylgi endurskoðunarákvæði á annað hvort þriggja eða fimm ára fresti og bera auk þess 0,7 til 1 prósentu vaxtaálag.

Hluti íbúðalána í skuldum heimila aukist mikið

Alls voru hrein ný útlán í október, hjá öllum lánastofnunum og öllum gerðum lána, tæplega 30 milljarðar króna. Það er svipuð upphæð og í september og júli en hærra en öllum öðrum mánuðum sem mælingar ná til. Af þessum sökum hafa skuldir heimila vegna íbúðalána aukist talsvert og nemur aukningin um 6,7% á föstu verðlagi síðustu tólf mánaða.

Síðustu þrjú ár hafa skuldbreytingar heimila úr verðtryggðum lánum í óverðtryggð „gengið furðu hratt fyrir sig,“ einkum á þessu ári. Enn eitt metið féll í október þegar þáttur óverðtryggðra lána í öllum útistandandi íbúðalánum heimila jókst um meira en tvö prósentustig frá mánuðinum á undan. Í október voru óverðtryggð lán orðin 38,8% en voru 27,6% í janúar. Þetta eru miklar breytingar á stuttum tíma en tveggja prósentustiga breyting á heildarútlánum heimila samsvarar tæplega 40 milljörðum króna. Aldrei hafa aðrar eins breytingar orðið á hlutfalli milli óverðtryggðra og verðtryggðra lána og í október.

Færri fá húsnæðisbætur

Í nóvember fækkaði þeim sem fengu greiddar húsnæðisbætur um 200 miðað við mánuðinn á undan en rúmlega 500 fleiri en í nóvember í fyrra. Að meðaltali var upphæð húsnæðisbóta 32.500 krónur og alls greiddar út 540 milljónir. Meðalfjárhæð að baki húsnæðisbótum í október var um 139.100 krónur sem er um 200 krónum lægra en í september sem var um 3.700 krónum lægra en í sama mánuði í fyrra. Mánaðarlegar meðaltekjur umsækjenda hafa á móti lækkað um 5.600 kr. á sama tímabili, en meðaleignir hækkað um 74.000 kr. að jafnaði á síðustu 12 mánuðum.