
Lyfjastofnun vísar á vinnueftirlitið í Kína
Danska ríkisútvarpið greindi frá þessu í gær en umfjöllunin er afurð rannsóknarvinnu nokkurra evrópskra fjölmiðla á vettvangi OCCRP, samtaka rannsóknarblaðamanna sem sérhæfa sig í að fjalla um glæpi og spillingu. Grímurnar keyptu dönsk svæðisyfirvöld af sænska innflytjandanum OneMed, til dæmis voru í mars keyptar yfir 100 þúsund grímur til að tryggja öryggi fólks á sjúkrahúsum á Mið-Jótlandi. OneMed er þó ekki eina evrópska fyrirtækið sem hefur selt grímurnar.
Vissu ekkert um upprunann
Svæðisyfirvöld í Danmörku komu af fjöllum þegar fréttamenn DR höfðu samband, höfðu ekki hugmynd um við hvað aðstæður grímurnar hefðu verið framleiddar.
Rannsókn evrópsku blaðamannanna bendir til þess að fjöldi Evrópuríkja hafi flutt inn grímur frá kínversku verksmiðjunni Hubei Haxin Protective Products. Frá því í mars 2019 hafa þar starfað að minnsta kosti130 úígúrskar konur frá Xinjiang-héraði. Í umfjöllun DR er líkum leitt að því að þær hafi verið fluttar nauðugar þvert yfir landið til að starfa í verksmiðjunni í Hubei-héraði.
Fái ekki að yfirgefa verksmiðjuna
Mannréttindasamtök hafa undanfarin ár fordæmt meðferð kínverskra stjórnvalda á Úígúrum, sem eru íslamskur minnihlutahópur, Úígúrar hafa verið vistaðir í sérstökum þjálfunarbúðum þar sem þeim hefur verið þrælað út, stjórnvöld hafa bannað þeim að iðka trú sína og neytt þá til að samlagast kínverskri menningu.
Í umfjöllun DR kemur fram að konunum sem framleiddu grímurnar í verksmiðjunni í Hubei hafi verið gert að læra kínversku, syngja kínverska þjóðsönginn og hylla kínverska fánann. Þá hafi þeim verið meinað að yfirgefa verksmiðjusvæðið. Þessu vísa kínversk stjórnvöld á bug.
Viðvörunarljósin fari strax að blikka
Verksmiðjunnar í Hubei er líka getið í skýrslu bandarísku mannréttindasamtakanna Workers Rights Consortium, þar segir að þrátt fyrir að konurnar fái laun fyrir vinnu sína, sé ómögulegt að útiloka að þær hafi verið beittar nauðung. Danski mannfræðingurinn, Rune Steenberg, tekur undir þetta, segir að opinbert markmið kínverskra stjórnvalda sé að hjálpa Úígúrum út úr fátækt, að hugsanlega hafi þær skrifað undir samning en það sé ekki þar með sagt að þær hafi val. Það blikki strax ótal viðvörunarljós og dönsk stjórnvöld hætti á að láta bendla sig við mannréttindabrot. Hann bendi rá að Danmörk hafi ásamt fleiri vestrænum löndum skrifað undir yfirlýsingu um að sniðganga vörur sem framleiddar eru af Úígúrum í Kína.
Bandaríska blaðið New York times fjallaði um verksmiðjuna í júlí, eftir að grímur þaðan rötuðu á bandarískan markað í gegnum heildsalann McKesson. Í umfjölluninni var staða kvennanna gagnrýnd. Þrátt fyrir afhjúpanirnar héldu OneMed og McKesson áfram að selja grímurnar.
Svíar vandi sig meira í opinberum innkaupum
Steenberg segir það stórkostlegt vandamál að svæðisyfirvöld í Danmörku hafi ekki betri yfirsýn yfir það hverjir framleiða grímurnar sem peningum danskra skattgreiðenda er varið í. Peter Lund-Thomsen, sérfræðingur í alþjóðlegum aðfangakeðjum við viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn segir í samtali við DR að dönsk yfirvöld ættu að líta til Svía. Í Svíþjóð hafi þeir sem annast opinber innkaup hlotið sérstaka þjálfun og miðlæg skrifstofa annist rannsóknir á vinnuaðstæðum fólks í helstu verksmiðjum sem skipt er við í Kína, Indlandi og Pakistan.
Lyfjastofnun vísar á kínverska vinnueftirlitið
Lyfjastofnun getur ekki staðfest hvort grímur frá sænska heildasalanum OneMed séu seldar á Íslandi. Stofnunin býr heldur ekki yfir upplýsingum um hvort til landsins hafi verið fluttar grímur eða annar búnaður framleiddur í kínversku verksmiðjunni Hubei Haxin Protective Products. Í svari stofnunarinnar við fyrirspurn Fréttastofu kemur fram að hlutverk hennar sé að hafa eftirlit með því hvort grímur sem framleiddar eru sem lækningatæki uppfylli öryggisstaðla, hvað varðar vinnuaðstæður fólks í kínverskum grímuverksmiðjum og hvort þær teljist viðunandi vísar stofnunin á vinnueftirlitið í Kína. Það sé vinnueftirlitsins í hverju framleiðslulandi að tryggja að vel sé farið með fólk.
Fréttastofa hafði samband við Rekstrarvörur og Rekstrarland, sem flytja inn mikið af grímum fyrir heilbrigðisstofnanir, hvorugt fyrirtækjanna sagðist kaupa vörur frá OneMed.