Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Lést vegna loftmengunar

16.12.2020 - 16:23
Mynd: EPA / EPA
Dánardómstjóri í Lundúnum úrskurðaði í dag að loftmengun hefði verið dánarorsök Ellu Kissi-Debrah, níu ára stúlku sem lést árið 2013. Málið hefur vakið alþjóðlega athygli og er talið að þetta sé í fyrsta sinn sem dómstóll kveður upp úrskurð um að loftmengun hafi verið dánarorsök. Ella Kissi-Debrah þjáðist af astma en í úrskurði dómstjórans í dag segir að loftmengun hafi bæði verið orsök og gert astmasjúkdóm stúlkunnar verri.

Bjó við miklar umferðargötur

Ella bjó allt líf sitt við miklar umferðargötur í Lundúnum þar sem loftmengun er langt umfram viðmiðunarmörk Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og Evrópusambandsins. Hún fékk illvígan astma eftir lungnasýkingu og var lögð á sjúkrahús nærri 30 sinnum á síðustu þremur árunum sem hún lifði.

Móðirin sagði alltaf að dánarorsökin væri mengun

Rosamund Kissi-Debrah, móðir Ellu, hefur alla tíð haldið því fram að loftmengun hafi verið raunarveruleg dánarorsök. Hún fagnaði úrskurðinum í dag en sagðist vona að þetta gæti verndað önnur börn.

Áfrýjunarréttur hafnaði upphaflegum úrskurði

Upphaflega var dánarorsök Ellu Kissi-Debrah sögð öndunarerfiðleikar, áfrýjunarréttur hafnaði þeim úrskurði og sendi málið aftur til dánardómstóls vegna þess að nýjar upplýsingar hefðu komið fram. Lögfræðingar fjölskyldu Ellu sögðu úrskurðinn mikilvægan, borgaryfirvöld yrðu nú að gera ráðstafanir til að draga úr loftmengun í Lundúnum.

 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV