Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Kveikjan var drungalegt tónverk eftir morðingja

Mynd: Ari Magg/RÚV / Sinfonia.is/RÚV

Kveikjan var drungalegt tónverk eftir morðingja

16.12.2020 - 09:28

Höfundar

Ragnar Jónasson og Víkingur Heiðar Ólafsson skrifuðu saman glæpasmásögu sem til stendur að gefa út fyrir jól. „Ég held að Víkingur hafi gaman af því að prófa nýja listgrein,“ segir Ragnar um félaga sinn.

Ragnar Jónasson glæpasagnahöfundur hefur sent frá sér tólf bækur og sú nýjasta kom út á þessu ári og nefnist Vetrarmein. Hún gerist á Siglufirði og fjallar um Ara Þór Arason lögreglumann, sem er lesendum Ragnars að góðu kunnur, og þarf hann nú að glíma við óhugnanlegt mál um páskahátíðina.

Hlustaði á tónlist við lærdóminn

Þegar Ragnar skrifar bækur sínar finnst honum best að hafa þögn í kringum sig en þegar hann tekur sér pásu hlustar hann gjarnan á tónlist. Í skóla þegar hann lærði fyrir próf hlustaði hann mikið á klassíska tónlist en hún hefur ekki sömu áhrif þegar hann skrifar bækur. Hann getur skrifað í hávaða á kaffihúsi en ekki hlustað á tónlist. Hins vegar dúkkar tónlist víða upp í bókum hans og honum þykir gaman að tengja þessar listgreinar saman.

Leikur á píanóið og fer í annan heim

Fyrir nokkrum árum keypti Ragnar sér píanó og fór í nokkra tíma til að læra á það. Hann nýtur þess mikið að tylla sér við slaghörpuna og spila á milli anna. „Ef maður er að vinna mikið, stússast í bókum og það er álag, ef ég bara sest niður og spila finnst mér ég ekki geta hugsað um neitt annað en að ná nótunum rétt. Ef það er eitthvað mikið í gangi sest ég niður, finn lag, opna nótnabók og fer í annan heim,“ segir hann.

Tengist móður sinni í gegnum klassíkina

Tónlistin er líka stór hluti af lífi Ara Þórs lögreglumanns úr Vetrarmeini og fyrri bókum Ragnars því móðir hans heitin var hljóðfæraleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Í bókunum hlustar hann mikið á tónlist. „Maður nefnir ekkert hvað hann er að hlusta á en hann fer aftur í þann tíma þegar mamma hans er hjá honum,“ segir Ragnar.

Tónlist í bókum

Þegar hann var að skrifa Þorpið fann hann gamla vögguvísu, Lullubía litla þrá, sem var rauður þráður í gegnum söguna og fékk vin sinn til að semja lag við vísuna. Sá heitir Evan Fein og er bandarískt tónskáld. Í auglýsingum fyrir bókina er lagið jafnan spilað og það er líka notað í hljóðbókinni til að búa til stemningu. Í nýjustu bók Ragnars sem enn er í smíðum er líka lag eftir Evan sem hann samdi við ljóð eftir Ragnar. „Ég er aðeins að ná því markmiði að skrifa tónlist fyrir bækur,“ segir hann.

Eini áhorfandinn á bestu tónleikunum

Í vor hófst nokkuð óvænt samstarf Ragnars og vinar hans Víkings Heiðars Ólafssonar píanóleikara. Þeir hittust í hverri viku í Hörpu þar sem Víkingur lék á píanóið fyrir breska sjónvarpið og Ragnar sat einn í áhorfendasalnum og hlýddi á vin sinn. „Þetta eru bestu tónleikar sem ég hef farið á,“ segir Ragnar.

Spinna þráð í gegnum tónskáldið

Þegar flutningnum lauk settust félagarnir niður og ræddu málin og fengu þá hugmynd að skrifa saman glæpasmásögu með tónlist. Sagan heitir Tónleikarnir og til stendur að birta hana í Morgunblaðinu um jólin. „Þetta var frábært og vonandi gerum við meira af þessu. Ég held að Víkingur hafi gaman af því að prófa nýja listgrein,“ segir Ragnar. „Hann tók þetta mjög alvarlega og lagði mikið á sig svo við gætum náð að klára þetta.“

Í sögunni er fjallað um verk sem heitir Moro, lasso, al mio duolo eftir Carlo Gesualdo. „Þetta er mjög drungalegt verk eftir höfund sem dramatískar sögur voru sagðar um,“ segir Ragnar en Carlo var gefið að sök að hafa myrt konuna sína. „Við spinnum þráð í kringum mann sem er að hlusta á þetta verk á tónleikum,“ segir Ragnar.

Arndís Björk Ásgeirsdóttir ræddi við Ragnar Jónasson í þættinum Skáld hlusta á Rás eitt.