Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hlakka til að hrífa leikhús- og tónleikagesti á ný

Mynd með færslu
 Mynd: SÍ og Þjóðleikhúsið
Listafólk Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands sendu í kvöld frá sér nýja útgáfu af jólalaginu „Ég hlakka svo til!“. Myndbandið er eins konar saknaðar-, þakkar- og tilhlökkunarkveðja á tímamótum þegar hillir undir lok baráttunnar við COVID-19. 

Í orðsendingu frá stofnununum tveimur segir að undir lok óvenjulegs og krefjandi árs líti listafólk yfir farinn veg og horfi björtum augum fram á veginn. Sviðslistafólk landsins hafi ekki getað sinnt sínum hefðbundnu störfum, enda hafi tónleikasalir og leikhús að mestu verið lokuð frá því um miðjan marsmánuð. Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfoníuhljómsveitar Íslands, segir hljómsveitina ekki geta beðið eftir því að fylla Eldborg og Magnús Geir Þórðarson Þjóðleikhússstjóri segir listamennina hlakka óskaplega til þess að hrífa áhorfendur á ný.

Upptökur fóru fram í Hörpu og Þjóðleikhúsinu á síðustu vikum. Listamennirnir komu einir eða í litlum hópum og tóku sinn hluta upp í samræmi við gildandi takmarkanir. 

Lagið „Ég hlakka svo til!“ var fyrst flutt hérlendis af Svölu Björgvinsdóttur en er upprunnið á Ítalíu. Nýja útgáfan sem Sinfóníuhljómsveit Íslands og Þjóðleikhúsið birtu nú í kvöld var útsett af Hrafnkeli Orra Egilssyni. Hljóðfæraleikur Sinfóníuhljómsveitarinnar, undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar, var tekinn upp í Hörpu og söngur leikara Þjóðleikhússins var tekinn upp í Þjóðleikhúsinu. Upptökum stýrði Aron Þór Arnarsson. Leikstjóri var Jón Þorgeir Kristjánsson en Gunnar Örn sá um upptöku og klippingu. Margrét Ragnarsdóttir og Halla Oddný Magnúsdóttir stýrðu verkefninu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Guðjón Davíð Karlsson og Hallgrímur Ólafsson stýrðu söng yfir fimmtíu leikara.