Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Heildstæð mynd í broti úr tíma

Mynd: - / Bjartur

Heildstæð mynd í broti úr tíma

16.12.2020 - 11:38

Höfundar

Skáldsaga Yrsu Þallar Gylfadóttur, Strendingar, fjallar um venjulega fjölskyldu sem tekst á við venjulega, en um leið einstaka tilveru, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi. „ Ekkert er dregið undan í þessum fyrstu persónu frásögnum, sem samanlagðar skapa heildstæða mynd í broti úr tíma.“

Gauti Kristmannsson skrifar:

Fjölskyldan er flókið fyrirbæri, það vitum við öll, að minnsta kosti þegar á reynir í samskiptum eða þegar eitthvað óvænt kemur upp á. Skáldsagan Strendingar segir frá fjölskyldu einni sem flutt hefur út á land og komið sér fyrir á Stapaströnd, dæmigerðu sjávarþorpi úti á landi. Fjölskyldan er líka dæmigerð að mörgu leyti, millistéttarfjölskylda, hjón með þrjú börn, það elsta stjúpbarn á unglingsaldri og hin tvö sex ára drengur og ómálga stúlkubarn. Föðurafi barnanna leikur líka hlutverk, nýbúinn að missa konuna sína og kominn með elliglöp. Heimiliskötturinn hefur sömuleiðis sína rödd og það skondna, honum finnst lítið til hinna fjölskyldumeðlimanna koma þótt þau sjái honum fyrir fæði og húsnæði.

Við fyrstu sýn, kannski ekki spennandi söguefni, en höfundurinn, Yrsa Þöll Gylfadóttir, tekst á við þetta með frumlegum og fremur óvenjulegum frásagnarhætti. Hver þessara aðalpersóna, og kötturinn líka, segja söguna frá sínu sjónarhorni í fyrstu persónu. Við lesendur kynnumst þeim í gegnum orð þeirra og gerðir, en höfum líka aðgang að hugsunum þeirra og vangaveltum, við sjáum fjölskyldulífið frá þessum fjölmörgu sjónarhornum og stundum sömu atburði með mismunandi hætti. Þetta er býsna snjöll frásagnaraðferð þegar maður hefur áttað sig á þessu í byrjun. Hún kallar líka á mismunandi stílbrögð og talshátt eftir því hver hefur söguröddina hverju sinni og gerir þetta dæmigerða fjölskyldulíf fjölbreyttara og flóknara en ef aðeins ein persóna segði söguna út frá sínu sjónarhorni.

Þetta er að mörgu leyti áfallasaga, allar aðalpersónur sögunnar verða fyrir einhverjum áföllum og þurfa að takast á við þau. Þau eru misalvarleg vissulega, en þó umtalsverð og ærið mörg fyrir eina fjölskyldu á sex mánuðum; dauðsfall ömmunnar, taugaáfall móðurinnar, einelti af ýmsum gerðum þar sem börnin eru bæði fórnarlömb og gerendur, að því er virðist. Meira að segja kötturinn verður fyrir slíku áfalli að hann tekur til sinna ráða. Viðbrögð allra eru býsna eðlileg og átökin við umheiminn taka sinn toll, en sýna furðu vel gert fólk þrátt fyrir allt. Það er hægt að finna til samlíðunar og þótt maður geti látið sumt sem þau gera fara í taugarnar á sér, þá veit lesandinn innst inni að hann eða hún væri vísast engu betri í sínum gerðum.

Undirtitill sögunnar er „Fjölskyldulíf í sjö töktum“ og geri ég ráð fyrir að það eigi við persónurnar sjö og er þá amman ekki talin með, enda segir hún ekki frá sjálf. Sagan fer líka frá einni persónu til annarrar í hverjum kafla sem ber nafn viðkomandi; hún er líka sögð í réttri tímaröð frá febrúar til júlí, en svo heita hlutarnir sex sem sögunni er skipt niður í og má eflaust velta fyrir sér þeirri skiptingu frásagnarfræðilega, en hún myndar fyrst og fremst tímaramma utan um sögur þessara mismunandi einstaklinga, og kemur kannski aðeins í staðinn fyrir hefðbundið plott eða fléttu, þar sem það er engin markhyggja fólgin í sögunni með klassísku upphafi, miðju og endi, þótt hugsanlega megi segja að dauðsfall ömmunnar og viðvera afans í framhaldinu sé upphaf einhverra átaka í klassískum skilningi. Það á reyndar líka við um átök móðurinnar í starfi sem verða til þess að hún fær einhvers konar taugaáfall, eða átök eldri barnanna við umhverfi sitt í skóla og við kynþroskann.

Bygging sögunnar kallar á mismunandi stíl eftir því hvaða karakter er að segja frá hverju sinni. Er þetta vel heppnað að mörgu leyti og gerir persónurnar ljóslifandi eins og þær eru. Drengurinn ungi hefur sinn talanda, stóra systir hans líka, þótt mér fyndist hún á stundum tala heldur gott mál miðað við aldur og fyrri störf, ef svo má segja. Reyndar er hún mjög bráðþroska og veraldarvön í tali, en sumt í fari hennar er líka allt að því einfeldningslegt sem gefur henni aukna vídd, hún hefur talandann, en gerir stundum hluti sem eru ekki eins klárir. Sögur afans með elliglöpin eru áhugaverð, hvernig hann ruglar saman veruleika í rúmi og tíma, ruglar saman persónum í kringum sig, þannig að allir í kringum hann ruglast líka í ríminu, eitt andartak að minnsta kosti.

Fjölskyldufaðirinn er líka svolítið ruglaður í ríminu, með sjálfan sig; hann hefur dreymt um að vera skapandi, listamaður, og gerir tilraun til að yrkja í upphafi, hann er jú í fæðingarorlofi með ómálga barninu og er kannski að skríða á þann aldur að honum finnst hann þurfa að skilgreina sig og líf sitt upp á nýtt, vandamál sem við þekkjum öll á einhverju tímabili ævinnar. Móðirin, að afanum frátöldum, er kannski harmrænasta persónan í sögunni, hún er ein af þessum ofurkonum sem kunna sitt og vilja gera rétt í vinnu og fjölskyldu, en rekst á horn veruleikans sem endar með áfalli. En hún gefst ekki upp og heldur áfram, fer að vinna í sér, eins og sagt er, en það er kannski einmitt harmurinn, hún er að reyna að laga sig að því sem vænst er af henni. Ungabarnið, sem fær á endanum málið í eigin huga í lokin, þarf síðan að berjast við orsakasamhengi tilverunnar, sem það hefur ekki tök á að skilja enn, kannski er áfall þess að læra tungumálið sem gerir okkur að öllu sem við erum, með því óöryggi sem því fylgir að vera manneskja.

Eins og við er að búast með þetta persónugallerí er komið inn á mörg málefni og það kemur fyrir að einhver predikunartónn læðist inn í hugarheim og samtöl persónanna, en það er samt allt innbyggt í orðræðu og hugsanir þeirra. Satt að segja grípur þetta mann sem lesanda í bólinu á stundum, hugmyndir foreldranna um tölvuleiki, gott mál og vandað, og annað sem staglast er á í hverri fjölskyldu, ímynda ég mér. Þetta er því líkast til óhjákvæmilegt í sögu um venjulega fjölskyldu sem er að takast á við venjulega, en um leið einstaka tilveru. Við getum séð okkur sjálf í fólkinu og um leið alls ekki. Það er ekki ónýtt að fylgjast með þessum þáttum úr fjölskyldulífi þar sem allt sem gerist, og getur gerst, og það gerist einmitt af því ekkert er dregið undan í þessum fyrstu persónu frásögnum, sem samanlagðar skapa heildstæða mynd í broti úr tíma.

Venjulegt fjölskyldulíf er kannski ekki dramatískt, en þessi saga sýnir, með sinni margradda byggingu, að dramatík tilverunnar felst ekki í stórkostlegum viðburðum, heldur er lífið sjálft drama sem vinna þarf úr á hverjum degi.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Móðurlífið blönduð tækni – Yrsa Þ. Gylfadóttir

Menningarefni

Móðir fórnar fjölskyldunni fyrir listina

Menningarefni

Dansað út úr röðinni