Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Enginn í fjöldahjálparstöðinni á Seyðisfirði í nótt

16.12.2020 - 08:01
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Enginn þurfti að leita til fjöldahjálparstöðvar sem opnuð var á Seyðisfirði í gærkvöld. Þeir sem þurfti að yfirgefa heimili sín höfðu í önnur hús að vernda að sögn lögreglunnar á Austurlandi.

Kristján Ólafur Guðnason yfirlögregluþjónn á Eskifirði segir að nóttin hafi verið róleg á Seyðisfirði. Ekki sé vitað til þess að skriða hafi fallið síðan klukkan 22 í gærkvöldi. Dregið hafi úr úrkomu upp úr miðnætti og ástandið hafi jafnað sig. Umfangið eigi eftir að koma betur í ljós í birtingu.

Rauði kross Íslands opnaði fjöldahjálparstöð í gærkvöld í kjölfar skriðufallanna og voru um 110 til 120 manns þar í gærkvöld. Að sögn Kristjáns dvaldi enginn þar í nótt, fólk kom sér í náttstað annars staðar. Fjöldahjálparstöðin verður opnuð aftur nú í bítið og getur fólk leitað þangað eftir upplýsingum og húsaskjóli. Fólki verður hleypt skipulega heim til sín í dag til að sækja sér nauðsynjar fyrir daginn. 

Björgunarsveitamenn á Seyðisfirði voru við hreinsun á aur,grjóti og öðrum jarðvegi langt fram eftir kvöldi í gær. Þeir gengu til hvíldar upp úr miðnætti og hefja störf að nýju nú klukkan átta samkvæmt upplýsingum frá Davíð Má Bjarnasyni, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.