Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Eðlilegt að vera dapur segja sálfræðingar HÍ

Mynd með færslu
 Mynd: Bergljót Baldursdóttir
Ekki er tekið við fleiri beiðnum eftir einstaklingsviðtölum hjá sálfræðiþjónustu Háskóla Íslands til áramóta. Til stendur að stokka þjónustuna upp á nýju ári. Ásta Rún Valgerðardóttir og Katrín Sverrisdóttir, sálfræðingar við Háskóla Íslands, segja að það sé eðlilegt að finna fyrir depurð þessa daga en ánægjulegt að verða vitni að því hve mikil seigla er í nemendum.

Nemendum líður ekki vel

Stúdentaráð lét gera könnun meðal nemenda í október sem 2.300 manns tóku þátt í. Niðurstöðurnar sýna að 72 prósent námsmanna finna fyrir miklu álagi og 62 prósentum leið ekki vel. Sálfræðingar við Háskólann hafa fundið fyrir þessu og haft mjög mikið að gera.  

Rætt var við Ástu Rún og Katrínu, sem eru tveir af þremur sálfræðingum hjá sálfræðiþjónustu Háskóla Íslands, á heilsuvaktinni í Mannlega þættinum á  Rás eitt. 

Sálfræðiþjónusta hefur verið veitt við skólann í þrjátíu ár. Katrín hóf störf  fyrir um átta árum og tók þá við af sálfræðingi sem hafði starfað við skólann í 25 ár. Á þessum árum hefur sálfræðiþjónustan breyst og vaxið. 

Ásta Rún segir að eftirspurnin hafi aukist vegna þess að fólk sé almennt orðið meðvitaðra um að passa upp á geðheilsuna og andlega líðan en einnig hafi Stúdentaráð beitt sér fyrir því að fjölga sálfræðingum og var bætt við heilu stöðugildi. 

Ekki tekið við fleiri beiðnum til áramóta

Undanfarið hefur verið mjög mikil eftirspurn eftir þjónustunni og má sjá á vef hennar tilkynningu um að ekki sé tekið við fleiri beiðnum um einstaklingsviðtöl hjá sálfræðingum HÍ á þessu misseri. 

Ásta Rún segir að gríðarleg eftirspurn hafi verið eftir sálfræðiþjónustu og af því einungis starfa þrír sálfræðingar við skólann hafi ekki verið hægt að anna eftirspurn. „En við höfum boðið upp á hópmeðferðir í staðinn sem hefur verið mjög vel nýtt. Við höfum verið með sex hópa núna á þessu misseri og stefnum á að vera áfram á næstu önn með marga hópa sem geta nýst stórum fjölda nemenda.“  

Ekki er tekið niður á biðlista heldur getur fólk haft samband í janúar og þá verði vonandi ekki lengri en mánaðar bið.  

Katrín segir að tekin hafi verið ákvörðun um að loka fram að áramótum því fullbókað hafi verið í einstaklingstímana. Til standi að stokka þjónustuna upp. í byrjun næsta árs. „Þannig að allir sem hafa sent á okkur hafa fengið fyrirmæli um að hafa samband á nýju ári.“

Nemendum hefur fjölgað gríðarlega.

Ásta Rún og Katrín segja að álagið og þessi aukna eftirspurn sé vegna farsóttarinnar en líka hafi nemendum fjölgað verulega. Metfjöldi stundar nú nám við Háskóla Íslands eða tæplega 15.000 manns. Búist er við enn meiri fjölgun á vormisseri. Sextíu prósent fleiri umsóknir bárust fyrir komandi vormisseri en á sama tíma og í fyrra. Auk þess hafi yfirstjórn skólans  líka verið dugleg að kynna þjónustuna og hvetja nemendur til að leita sér aðstoðar. Allir nýnemar hafi fengið tölvupóst um hana í haust. 

Ungu fólki líður illa

Talið er að meira sé um kvíða og þunglyndi hjá ungu fólki nú á dögum en áður var. „Klíníska reynslan núna segir mér og mér finnst ég sjá að depurð sé að aukast,“ segir Ásta Rún. Áður en farsóttin geysaði mátti greina kvíða hjá sumu ungu fólki en eftir að hún fór af stað megi sjá meira af einkennum depurðar hjá þeim sem leita til sálfræðiþjónustunnar. „Það er kannski helsta breytingin en kvíðinn er að aukast líka í þessum aðstæðum.“

Heilbrigt að vera dapur

Katrín tekur undir þetta og segir að faraldurinn hafi áhrif á alla. Það sé við því að búast að þetta taki á andlega. „Að vissu leyti er það ákveðið heilbrigði að finna fyrir því. Það verður meiri fjarlægð á milli fólks og minna um knús og nánd og þessa félagslegu hittinga.“  Margt hafi breyst og fólk þurft að leita nýrra bjargráða.  

„Þetta er áhugavert svar.  Þú segir að það sé í rauninni heilbrigt að vera dapur?  Já ég vona að ég nái að koma því til skila hvað ég meina. Þetta eru kannski bara eðlileg viðbrögð við íþyngjandi og jafnvel flóknum og erfiðum kringumstæðum.“  Fólk geti jafnvel ekki hitt foreldra sína, ömmu og afa né jafnaldra og það geti verið erfitt.   

Ásta Rún bætir við að það að fá ekki að hitta fólkið sitt og samnemendur geti ýtt undir áhugaleysi því stór hluti af háskólalífinu snúist um að vera í tengslum við fólk. Erfitt geti verið að viðhalda áhuganum og sjálfsaga við þessar aðstæður. Nemendur reyni nú að finna leiðir til að takast á við þetta. 

Nemendur úrræðagóðir og sýna seiglu 

Hópastarf sálfræðinganna hefur skilað góðum árangri við kvíða og þunglyndiseinkennum. Starf þeirra byggist á hugrænni atferlismeðferð  og er  reynt að kortleggja vanda hvers og eins. „Við notum mikið hugsanaskráningar og skoðum virkni og sendum fólki sjálfshjálparefni sem það getur unnið sjálft með  og komið svo með í næsta tíma og skoðað hvernig það gekk. Og sett  markmið og þess háttar.“ Öll viðtölin sálfræðinganna hafa verið um fjarfundabúnað.  

Ásta Rún og Katrín benda á að í könnun stúdentaráðs hafi komið fram að langflestir sem svöruðu sáu fram á að geta lokið misserinu.  Ánægjulegt hafi verið taka þátt í því með nemendum að finna uppbyggilegar og hjálplegar leiðir. Margir hafi sýnt hugmyndauðgi og aðlögunarhæfni og tekið ábyrgð á líðan sinni og námi og farið eftir covid ráðleggingum. „Alltaf gaman þegar maður er að vinna með fólki að sjá hvað býr mikil seigla í okkur öllum og hvað fólk getur verið úrræðagott að takast á við erfiðar aðstæður og gera gott úr því sem er mjög erfitt,“ segja þær Ásta Rún Valgerðardóttir og Katrín Sverrisdóttir, sálfræðingar við Háskóla Íslands.

 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV